Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 58
58
lýðræðisþróun Vesturlanda mögulega. Styrjaldirnar og heimskapítalism-
inn gerðu hins vegar út um allar einangrunarvonir þjóðríkjanna, ekkert
þjóðríki getur verið sjálfbært og einangrað. Smáríki Evrópu sem nutu
frelsisvæðingar þjóðríkjamyndunar þurfa þess vegna á samstarfsvettvangi
að halda þar sem réttur þeirra er virtur um leið og möguleikar til sam- og
viðskipta ná yfir landamæri þeirra.
Hugmyndin um þjóðríkið var og er hins vegar svo sterk að engum
dettur í hug að leggja það niður, ekki einu sinni Sovétríkjunum sálugu sem
þó kenndu sig við alþjóðahyggju kommúnismans. Leppríki þeirra fengu að
halda bæði stöðu sinni sem þjóðríki, að minnsta kosti að nafninu til, og það
sem mikilvægara er, oftast þjóðtungum sínum. Það var vissulega ekki ein-
hlítt og rússneska var skyldumál í skólakerfi leppríkja Sovétríkjanna, hvort
sem það var vegna hreins nýlendusambands eða menningarlegs forræðis
eins og varð með enska tungu á Vesturlöndum.
Ríkjasambönd og smáþjóðir
Í stað þess að nota yfirgnæfandi hervald sitt til beinnar stjórnunar stofn-
uðu bæði Sovétríkin og Vesturveldin varnarbandalög á hernámssvæðum
sínum, Varsjárbandalagið og NATO. Um svipað leyti gripu nokkur ríki til
þess ráðs að stofna viðskiptabandalög: Comecon var stofnað 1949 austan
járntjalds og vestan þess voru það Kola- og stálbandalagið (1950), sem
síðar varð að ESB, og fríverslunarbandalagið EFTA sem Íslendingar gerð-
ust aðilar að og rann síðar inn í Evrópska efnahagssvæðið og að hluta til
inn ESB.30
Umtalsverður munur var þó á þessum ríkjasamböndum í austri og vestri;
eins og NATO var Evrópusambandið byggt á því að þjóðríkin væru aðilar
af fúsum og frjálsum vilja, Varsjárbandalagið og Comecon síður, þótt ekki
væru menn beinlínis þvingaðir inn með vopnavaldi heldur. Um þetta má
vitanlega deila, í raun var Evrópa undir hernaðaryfirráðum Sovétríkjanna
og Bandaríkjanna upp úr seinna stríði, en það var þó augljós áherslumunur
á samstarfi ríkja í Austur- og Vestur-Evrópu. Það sást þegar ríki eins og
Ungverjaland og Tékkóslóvakía reyndu að komast undan hinu sovéska valdi
1956 og 1968 með skelfilegum afleiðingum og því að þegar ríki Austur-
Evrópu losnuðu undan því upp úr falli Berlínarmúrsins 1989 voru flest
þeirra óð og uppvæg að komast í „Vesturklúbbana“ NATO og ESB.
30 Sviss sagði sig síðan úr EES-samstarfinu árið 1992.
GAUTi KRiSTMANNSSON