Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 61
61
Þjóðtungur og stöðlun
Stöðlun þjóðtungnanna sem fram fór í gegnum móðurmálshreyfinguna
er einnig mikilvægur þáttur. Vissulega urðu ýmsar mállýskur og tungumál
minnihluta innan þjóðríkjanna undir og er það miður. Þessi stöðlun varð
þó sennilega til þess að auka skilvirkni þjóðríkjanna og -tungnanna og ýta
undir aukna menntun þegnanna þar sem til urðu stærri „markaðir“ fyrir
tungumálin. Afríski fræðimaðurinn Kwesi Kwah Prah heldur því t.d. fram
að eitt af vandamálum Afríku sé of lítil stöðlun mállýskna sem séu náskyld-
ar og sú sundrun tungumála sem n.k. „mállýskuvæðing“ Vesturlandabúa,
einkum trúboða, hafi valdið og standi í raun menntun og þróun Afríku
fyrir þrifum að mörgu leyti.36
Aukið læsi og dreifing upplýsinga á móðurmálum Evrópubúa flýtti
fyrir aukinni æðri menntun og lýðræðisþróun í álfunni. Gagnstætt því
þegar latínan hafði menningarlegt forræði í álfunni þá voru upplýsingar nú
ekki lengur nánast innilokaðar meðal lærðra manna eingöngu; þekkingin
breiddist út og hún er alltaf sterkasta vopn siðmenningarinnar.
Lýðræðisþáttur þjóðtungnanna
Grundvallaratriðið er hins vegar lýðræðiskrafan sem fólgin er í þeim rétti
að mega tjá sig á móðurmálinu. Móðurmálsbyltingin sem varð upp úr
endurreisninni og siðbreytingunni er einn meginþáttur þeirrar lýðræðis-
þróunar sem varð á Vesturlöndum, því með móðurmálinu fengu borg-
ararnir sterkt tæki til að hafa áhrif á stjórnvöld í krafti opinberrar umræðu.
Eins og heimspekingurinn þýski immanuel Kant hélt fram í sinni frægu
ritgerð frá 1784 um svar við spurningunni um hvað sé upplýsing, þá felst
frelsi manna í því að geta notað skynsemi sína opinberlega. Það er þannig
orðað í íslensku þýðingunni: „Eina skilyrðið fyrir því að umrædd upplýsing
geti átt sér stað er frelsið – og er þá átt við frelsið í sinni skaðlausustu mynd,
þ.e.a.s. frelsi til óskertrar notkunar skynseminnar á opinberum vettvangi.“37
36 Kwesi Kwah Prah, „Samræming og stöðlun Afríkumála í þágu vísindalegrar
og tæknilegrar framþróunar: Reynsla Miðstöðvar rannsókna á afrísku samfélagi
(CASAS)“, Málstefna – Language Planning, ritstj. Ari Páll Kristinsson og Gauti
Kristmannsson, Reykjavík: Íslensk málnefnd, 2004, bls. 65–81.
37 immanuel Kant, „Beantwortung der Frage: Was ist Aufklärung?“ [1784], Was ist
Aufklärung?Thesen und Definitionen, ritstj. Ehrhard Bahr, Stuttgart: Reclam, 1974,
bls. 9–17. Íslensk þýðing birtist undir heitinu „Svar við spurningunni: Hvað er upp-
lýsing?“, þýð. Elna Katrín Jónsdóttir og Anna Þorsteinsdóttir, Skírnir 167 (haust),
1993, bls. 379–386, hér bls. 380.
MÓÐURMÁLSHREyFiNGiN OG MÁLSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSiNS