Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 63
63
varðveislu írskunnar á Írlandi, sem margir óttast að sé deyjandi tungumál.
Ákvörðun Íra í samningum sínum við ESB reyndist í raun flýta fyrir því að
írska varð að algjöru minnihlutamáli í þeirra eigin landi. Seint og um síðir
áttuðu Írar sig hins vegar á því að tungumálið var að deyja og óskuðu þeir
nú fyrir skömmu formlega eftir því að írska yrði eitt af opinberum málum
ESB. Þetta gekk eftir, írska varð eitt af opinberum tungumálum ESB 1.
janúar 2007 og er það sennilega kraftmesta vítamínsprauta sem írsk tunga
hefur fengið í áratugi ef ekki aldaraðir. Endurnýjun tungumálsins fer fram
á hverjum degi gegnum þýðingar og túlkun og fjöldi hugtaka sem áður
voru óþekkt á þessu máli verða til á hverjum degi.
En hver yrðu þá áhrifin á íslenskuna? Vafalaust ekki eins mikil og á
írsku, enda má halda því fram að íslenska standi sterkar en írska vegna
yfirgnæfandi stöðu ensku á Írlandi. Í fyrsta lagi er enska ekki nema að ein-
hverju leyti opinbert mál hér á landi, eins og sjá mátti þegar spurningar
ESB voru birtar hér á ensku án þýðingar, með þeirri gamalkunnugu rök-
semdafærslu að það væri svo dýrt að þýða.41 Þetta er sérkennilegt þegar til
þess er litið að aðild að ESB er talin vera ein stærsta ákvörðun sem þjóðin á
að taka og miklum fjárhæðum er veitt til annarra mála sem vart teljast vera
af sömu stærðargráðu. Í annan stað er íslenskan að einhverju leyti þegar
innan ESB þar sem stór hluti þeirra reglna sem ESB gefur út er þýddur
á íslensku hjá Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins. Fullyrða má að þar
fer fram einhver mesta endurnýjun og uppbygging íslenskrar tungu í dag.
Án þess starfs væri íslenskan miklu fátækara mál en ella.42
Fátækara vegna þess að við þessar þýðingar verður ekki aðeins til rétt-
arfarslegur grundvöllur og reglur til að vinna eftir heldur einnig ný orð, ný
hugtök, ný svið tungunnar. Það virðist vera tungumálinu lífsnauðsynlegt
eins og ástandið er að verða í háskólum landsins þar sem íslenska er hægt
og rólega að verða útlæg úr rannsóknum og umdæmi tungumálsins hverfa,
41 Sbr. bréf utanríkisráðuneytisins til Bændasamtaka Íslands 24.9.2009. Það má
lesa hér: http://www.bondi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2313 [sótt 2.9.2011].
Gísli Ásgeirsson, þýðandi, dró kostnaðaráætlun ráðuneytisins í efa: http://eyjan.
is/2009/09/26/reyndur-thydandi-kostar-2-til-25-milljonir-ad-thyda-esb-spurnin-
gar-en-ekki-10-milljonir/ [sótt 2.9.2011]. Kristján Árnason hefur einnig fjallað um
samband ensku og íslensku í „Íslenska og enska: Vísir að greiningu á málvistkerfi“,
í Ritinu 2/2005, bls. 99–140.
42 Til að sjá umfangið á þessum þýðingum geta menn skoðað EES-vefsetrið: http://
www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/ og einkum Hugtakasafn Þýðingamið-
stöðvar utanríkisráðuneytisins http://www.utanrikisraduneyti.is/leit?q=hugtakasafn
[sótt 12.8.2011].
MÓÐURMÁLSHREyFiNGiN OG MÁLSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSiNS