Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 65
65
skipti milli aðildarríkjanna. Það eru því beinharðir hagsmunir á bak við
fjöltyngisstefnu Evrópusambandsins.46
Þá hefur það líka sýnt sig við umsókn Íslendinga að sérfræðingar
Evrópusambandsins á sviði þýðinga og túlkunar voru meðal þeirra fyrstu
sem komu á óformlega fundi hingað til lands í því skyni að kynna sér
stöðuna á þýðinga- og túlkamarkaði. Fyrir liggur að töluverðan fjölda
þýðenda og túlka þarf til að greiða fyrir aðildarviðræðum og verði af
aðild Íslendinga þarf vel á annað hundrað þýðendur til starfa í Brussel og
Lúxemborg auk einhverra tuga túlka til að starfa fyrir Evrópuþingið og
framkvæmdastjórnina. Þetta kallar á umtalsverða fjölgun sérfræðinga í
þessum störfum og þeir geta ekki byrjað með tvær hendur tómar og stúd-
entspróf í ensku, heldur verða þeir að vera með háskólagráðu, og gildir
einu af hvaða þekkingarsviði hún er, en þeir verða einnig að kunna minnst
tvö erlend tungumál mjög vel og vera afbragðsgóðir í íslensku. Þetta eru
vel launuð störf þar sem miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem inna þau
af hendi.47
Viðbrögð Íslendinga
Háskóli Íslands hefur þegar brugðist við þessari auknu þörf fyrir sérfræð-
inga á þessu sviði með námsleiðum til að þjálfa þýðendur og túlka en það
er mikilvægt fyrir stöðu íslenskunnar bæði í aðildarviðræðum og innan
stofnana Evrópusambandsins, fari svo að Íslendingar gerist aðilar.
Mesta hættan fyrir íslenska tungu felst kannski í oflæti Íslendinga sjálfra.
Margir Íslendingar telja sig kunna ensku afbragðsvel en þetta er ekki stutt
rannsóknum. Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís ingvarsdóttir bentu nýlega
á að rannsóknir í skólum „á Norðurlöndum, hér á Íslandi og annars staðar
í Evrópu hafa sýnt að bæði nemendur og kennarar ofmeta enskukunnáttu
sína“.48 Sumir eru afbragðsgóðir og alveg á heimavelli í ensku og kannski
46 Sjá t.d. Linda Breamer, „Learning intercultural Communication Competence“,
The Journal of Business Communication 29:3, 1992, bls. 285–303 og James P.
Johnson, Tomas Lenartowicz og Salvador Apud, „Cross-cultural competence in
international business: toward a definition and a model“, Journal of International
Business Studies 37/2006, bls. 525–543.
47 Sjá t.d. byrjunarlaun fyrir nýja þýðendur sem námu árið 2010 um 4.400 evrum
á mánuði: http://ec.europa.eu/dgs/translation/workwithus/staff/permanent/in-
dex_en.htm [sótt 16.8.2011].
48 Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís ingvarsdóttir, „Enskan og fræðaskrifin“, Milli
mála. Ársrit Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum 2/2011, bls.
179–200, hér bls. 181–182.
MÓÐURMÁLSHREyFiNGiN OG MÁLSTEFNA EVRÓPUSAMBANDSiNS