Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 66
66
einhverju öðru máli í sínu fagi. En það dugir engan veginn innan stofnana
Evrópusambandsins.
Hættan er hins vegar sú að Íslendingar sjálfir leggi svo mikla áherslu á
að nota bara ensku að fyrir þá sök eina verði íslenskunni ekki gert eins hátt
undir höfði, að til dæmis verði ekki eins margir túlkar ráðnir til starfa og
þörf er á. Það getur hins vegar orðið til vandræða á fleiri en einn hátt. Í
fyrsta lagi eru enskutúlkar ESB oft með ensku sem annað mál vegna þess
hve fáir enskumælandi menn tala erlend mál; það þýðir að enskan sem
menn heyra er ekki endilega sú sem Bretar tala. Meira um vert er þó að
íslenskur þingmaður eða fulltrúi í framkvæmdastjórninni tjái sig á íslensku
þannig að tungumálið njóti sömu virðingar og önnur erlend mál í þessum
stofnunum. Það er ekki aðeins til að þeir geti verið öruggir með sig í mál-
flutningi sínum og samningum, heldur ber þeim einnig skylda til að virða
þennan fullveldisþátt íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi fremur en að vera
annars flokks viðmælendur á misbjagaðri ensku.
Niðurstaða mín er því sú að íslensk tunga muni hafa aukinn hag af því
að Íslendingar séu fullgildir þátttakendur í Evrópusambandinu. Vissulega
hefur orðið gríðarleg nýliðun í tungumálinu gegnum þýðingar þær sem
fram fara vegna EES-samningsins og margvíslegs Evrópusamstarfs ann-
ars, en við það myndi bætast staða íslensku sem eins af opinberum málum
ESB. Fjöltyngi og virðing fyrir tungumálum þjóða og minnihlutahópa er,
líkt og áður sagði, grundvallarþáttur í sjálfsmynd Evrópusambandsins og
má sjá það af því að þau viðhorf eru bundin í reglur þess og einnig gríð-
arlegum beinum stuðningi í formi fjármuna til rannsókna og verkefna sem
miða að því að styrkja og efla bæði þjóðtungur og mál minnihluta innan
þjóðríkja.49
Ljóst er um leið að viðleitni til stuðnings íslenskunnar hefur lengi verið
mikil hér á landi og svo öflug að segja má að hér ríki sterk hefð málrækt-
ar og málhreinsunar og undirstrikar það hlutverk tungumálsins í sjálfs-
mynd Íslendinga.50 Það er að mínum dómi sú „sambærilega sérstaða“ sem
Íslendingar, ekki síst í ljósi reynslunnar, geta treyst á að viðhaldi sjálfsmynd
þeirra og styrki hana. Þannig yrði sú málstefna sem rekin er af ESB mik-
ilvæg viðbót við starfið hér innanlands og gæti orðið varanlegri ávinningur
en nokkur króna eða evra.
49 Sjá t.d.: http://ec.europa.eu/languages/index_en.htm [sótt 3.11.2011].
50 Sbr. t.d. Kjartan Ottósson, Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit, Rit Íslenskrar mál-
nefndar 8, Reykjavík: Íslensk málnefnd, 1990. Einnig hefur gríðarlegt starf verið
unnið í íðorðagerð og útgáfu á vegum Íslenskrar málnefndar og annarra aðila.
GAUTi KRiSTMANNSSON