Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 71
71
merkjum og söfnum, hins vegar hafa þessar afurðir verið nýttar til að koma
reglu á tíma og rými samfélagsins og þjóna hugmyndafræði og markmið-
um menningarlegrar þjóðernisstefnu.
Alþýðumenn, lárviðarskáld
Frá sjónarhóli hefðbundinnar bókmenntasögu gefur upphafning tiltekins
skálds eða listamanns oftast til kynna að verk viðkomandi séu öðrum til
fyrirmyndar eða hafi að minnsta kosti markað tímamót þegar þau voru
samin.5 Helgifesta slíks einstaklings sem menningarlegs þjóðardýrlings
felur í sér að minning og arfleifð hans skipti máli fyrir samfélagið með
víðtækari hætti og sé virkjuð í þjóðernispólitísku samhengi. iðulega eru
sterk tengsl þarna á milli; höfuðforsenda þess að Prešeren og Andersen eru
hafnir opinberlega á stall í heimalöndum sínum er sú virðing og vinsældir
sem þeir hafa notið sem listamenn. Báðir eiga þó sameiginlegt að vera
af alþýðufólki komnir og að hafa mætt ýmsu mótlæti í lifanda lífi. Þótt
skáldverk þeirra standi fyrir sínu var ekki sjálfgefið að þeir yrðu teknir í
dýrlingatölu þegar fram liðu stundir. Líta má svo á að í millitíðinni hafi
þeir orðið þjóðskáld en frá og með síðari hluta átjándu aldar var litið svo
á að hvert menningar- eða málsvæði þyrfti að eiga að minnsta kosti einn
ótvíræðan öndvegishöfund til að geta réttlætt tilvist sína sem þjóð. Meðal
annarra mikilvægra forsendna voru þjóðtunga, glæst fortíð og alþýðlegur
bókmenntaarfur (forn frásagnarhefð, þjóðsögur og þjóðkvæði).6
France Prešeren er fæddur í smábænum Vrba í Karníólu 3. desember,
aldamótaárið 1800. Hann var þriðji í röð átta systkina, faðir hans var bóndi
og gat, með fjárstuðningi ættingja, kostað drenginn til náms. Tólf ára að
aldri innritaðist hann í skóla í fylkishöfuðborginni Ljúblíana og árið 1821
lá leiðin áfram til Vínar. Prešeren lærði lögfræði og sneri aftur til Ljúblíana
að prófi loknu sjö árum síðar. Honum gekk hins vegar brösulega að koma
undir sig fótunum sem lögfræðingur og vann lengst af sem aðstoðarmaður
annarra lögfræðinga. Það var ekki fyrr en 1846 að hann fékk leyfi til að
opna sína eigin stofu í bænum Kranj sem er miðja vegu milli Ljúblíana
og Vrba. Prešeren fór að fást við skáldskap á námsárum sínum í Ljúblíana
5 Rakefet Sheffy, „The Concept of Canonicity in Polysystem Theory“, Poetics Today
11:3, 1990, bls. 511–522, hér bls. 511–512.
6 Sjá Virgil Nemoianu, „‘National Poets‘ in the Romantic Age: Emergence and imp-
ortance“, Romantic Poetry, ritstj. Angela Esterhammer, Amsterdam og Philadelphia:
John Benjamins Publishing Co., 2002, bls. 249–255.
MENNiNGARLEGiR ÞJÓÐARDÝRLiNGAR EVRÓPU