Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 72
72
en mestan hluta æskuljóða sinna brenndi hann eftir að hafa borið þau
undir virtan slóvenskan málfræðing og textafræðing, Jernej Kopitar, sem
jafnframt vann við ritskoðun í Vín. Seinna áttu þeir Prešeren eftir að
elda grátt silfur saman í harðvítugum deilum um æskilegan rithátt slóv-
enskrar tungu en þar bar Kopitar lægri hlut. Fyrsta kvæði skáldsins kom
fyrir almenningssjónir 1827, bæði á slóvensku og þýsku. Á næstu árum
birti hann fjölda ljóða eftir sig í tímaritum, meðal annars í ljóðaárbókinni
Karníólsku býflugunni (Krajnska čbelica) sem Prešeren stóð að ásamt fleiri
höfundum. Fyrstu þrjú heftin komu út á árunum 1830 til 1832 en útgáfa
fjórða og fimmta heftisins frestaðist fram til áranna 1834 og 1848, meðal
annars vegna ritskoðunar og var Kopitar talinn hafa átt þar hlut að máli.
Meðal mikilvægustu vina Prešerens á þessum tíma var málfræðingurinn
og bókmenntafræðingurinn Matija Čop, sem lést reyndar fyrir aldur fram
árið 1835. Hann hvatti Prešeren til að glíma við sonnettuformið og fleiri
sígilda bragarhætti. Á þessum tíma voru uppi efasemdir um að slóvenska
væri nógu þroskað tungumál fyrir svo háþróaðan skáldskap en Prešeren
afsannaði það, ekki síst með rómuðum „Sonnettusveig“ („Sonetni venec“)
sínum.7 Fyrsta bók hans, sem hafði að geyma söguljóðið Skírnin í Savíku
(Krst pri Savici), kom út árið 1836 og áratug síðar var prentað fyrsta safnið
með ljóðum hans. Þá var Prešeren hins vegar hættur að yrkja vegna þung-
lyndis og óreglu en hann lést í fátækt 8. febrúar 1849 og var banameinið
talið vera skorpulifur. Enda þótt útförin færi fram með virðulegum hætti í
Kranj, benti fátt til þess að nafn skáldsins myndi lifa áfram.8
yfirleitt er talið að saga Slóveníu hefjist á sjöttu öld þegar slavneskir
ættbálkar tóku sig upp sunnar og austar í álfunni, fluttu í átt að Adríahafi
og komu síðar á fót eins konar hertogadæmi sem var kennt við Karantaníu.
Á áttundu og níundu öld snerust íbúar á þessu svæði til kristinnar trúar
og beygðu sig jafnframt undir yfirráð Franka en þau áttu eftir að haldast
svo til óslitið fram að lokum fyrri heimsstyrjaldar, án þess þó að slavneskt
tungumál heimamanna glataðist. Frá því á fjórtándu öld tilheyrðu flest þau
héruð sem nú mynda Slóveníu ríki Habsborgara sem síðar varð austur-
ríska keisaradæmið. Tímabundin áhrif mótmælenda á sextándu öld lögðu
7 Marijan Dović, „France Prešeren: A Conquest of the Slovene Parnassus“, History
of the Literary Cultures of EastCentral Europe, ritstj. Marcel Cornis-Pope og John
Neubauer, Amsterdam: John Benjamins Publishing Co., 2010, bls. 97–109, hér
bls. 100.
8 Hér er meðal annars byggt á Henry Ronald Cooper, France Prešeren, Boston:
Twayne Publishers, 1981.
JÓN KARL HELGASON