Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 76
76
myndhöggvara en val og afhjúpun verksins dróst á langinn vegna þess að
Andersen vildi ekki að barn fengi að vera hjá honum á stöplinum, eins og
gert var ráð fyrir í fyrstu verðlaunatillögunni. Honum hugnaðist, að sögn,
ekki að vera þröngt skilgreindur sem barnabókahöfundur.17 Styttan var
ekki afhjúpuð í Kaupmannahöfn fyrr en árið 1880; Andersen situr í stól
með bók í annarri hendi en lyftir hinni, eins og hann sé að biðja um hljóð.
Framan á fótstalli styttunnar er lárviðarkrans.
Einveldi, kirkja, þjóðríki
Breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm hefur rakið hvernig fjöldafram-
leiðsla þjóðernispólitískra hefða hófst í mörgum ríkjum Evrópu á árabilinu
1870 til 1914. Hann lítur svo á að lýðræðisþróunin í álfunni hafi kallað á
nýjar leiðir til að beisla ólíka þjóðfélagshópa og rækta með þeim hollustu
gagnvart ríkisvaldinu. Komið var á fót nýjum „opinberum frídögum, hátíð-
legum athöfnum, hetjum og táknum“.18 Enda þótt börn á skólaskyldualdri
og ört vaxandi hópar opinberra starfsmanna væru meðfærileg í þessum
tilgangi var lykilatriði að stjórnvöldum tækist að virkja almenning til fylgis
við ný þjóðartákn og siði. Til skýringar nefnir Hobsbawm tilraunir þýska
keisaradæmisins til að hefja Vilhjálm i. Þýskalandskeisara á stall. Fram til
ársins 1902 voru reistar 327 styttur af Vilhjálmi í Þýskalandi auk þess sem
afmælisdagur hans var gerður að árlegum hátíðardegi. Frumkvæðið kom
hins vegar að ofan og hafði aldrei þau tilætluðu áhrif að skilgreina keis-
arann sem föður sameinaðs Þýskalands. Þar skaut fyrsti kanslari ríkisins,
Otto von Bismarck, Vilhjálmi ref fyrir rass en á fyrsta árinu eftir andlát
kanslarans ákváðu hvorki fleiri né færri en 470 héruð og bæjarfélög að
reisa svokallaðar Bismarck-súlur í minningu hans.
Lýsing Hobsbawms gefur til kynna að menn á borð við Bismarck,
Prešeren og Andersen – við Íslendingar getum bætt Jóni Sigurðssyni og
hugsanlega Jónasi Hallgrímssyni við þessa upptalningu – hafi tekið við
hlutverki einvaldsins sem sameiningartákn þjóðríkisins. Aðrir fræðimenn
hafa lagt áherslu á að uppgangur menningarlegrar þjóðernisstefnu sé einn-
ig tengdur róttækum breytingum á stöðu trúarinnar í samfélaginu. Þekktur
málsvari þessa viðhorfs er breski sagnfræðingurinn Benedict Anderson en
17 „H.C. Andersen Monument“, Illustreret Tidende 4. júlí 1880, bls. 415–416.
18 Eric Hobsbawm, „Mass-Producing Traditions: Europe, 1870–1914“, The Invention
of Tradition, ritstj. Eric Hobsbawm and Terence Ranger, Cambridge: Cambridge
University Press, 1983, bls. 263–367, hér bls. 263.
JÓN KARL HELGASON