Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 90
90
æskuheimili skáldsins í Vrba. Mennta- og íþróttamálaráðherrann ávarpaði
einnig samkomuna við þetta tækifæri og „lagði áherslu á hlutverk menn-
ingarinnar við mótun þjóðarinnar“.52 Um kvöldið stóð fyrrnefndi ráð-
herrann loks fyrir opinberri móttöku í Ljúblíana fyrir nýbakaða handhafa
Prešeren-verðlaunanna.
Í Danmörku hafa hvorki fæðingar- né dánardagur Andersens sama
opinbera sess og dánardagur Prešerens í Slóveníu en á 150 ára afmæli
skáldsins 1955 hófu menntamálaráðuneytið og rithöfundasambandið að
úthluta árlegum styrk, sem er kenndur við Andersen, til dansks skálds eða
fræðimanns sem þykir hafa starfað í anda eða þágu Andersens. Frá og með
1963 hefur H.C. Andersen-félagið í Kaupmannahöfn einnig veitt áþekka
viðurkenningu til fræðimanna.53 Þekktustu verðlaunin sem kennd eru við
skáldið eru hins vegar verðlaun alþjóðlegu barnabókasamtakanna iBBy,
sem veitt hafa verið annað hvert ár frá 1956.54 Þau staðfesta enn frekar
að Andersen er ekki hefðbundinn menningarlegur þjóðardýrlingur held-
ur hefur hann alþjóðlega skírskotun sem barnabókahöfundur og af þeim
sökum aðra virkni en Prešeren. Danir sjálfir hafa lagt vaxandi áherslu á að
þróa hann sem eins konar vörumerki til að ýta undir jákvæðar hugmyndir
útlendinga um Danmörku. Skipulagning á umdeildum hátíðarhöldum í
tilefni af 200 ára afmæli Andersens – undir kjörorðinu: „H.C. Andersen
2005 – Join the worldwide celebration“ – bar skýran vott um þetta.
Hugmyndin var að „hinn nútímalegi og tímalausi Andersen sannaði fyrir
umheiminum að Danmörk er land í fremstu röð þegar kemur að listum,
menningu, hönnun, tækni og siðferði“.55 Nýjustu verðlaunin sem kennd
eru við skáldið eru á sömu bókina lærð. Þetta eru ársgömul bókmennta-
verðlaun sem nema hálfri milljón danskra króna. Að þeim standa sérstök
verðlaunanefnd, Gyldendal-forlagið, bæjaryfirvöld í Óðinsvéum og ýmsir
52 „Culture Minister Honours Preseren and Preseren Prize Laureate“, Repu
blic of Slovenia: Government Communication Office: http://www.ukom.gov.si/en/
media_room/newsletter_slovenia_news/news/article/391/1052/edc72209fb/?-
tx_ttnews%5Bnewsletter%5D=44 [sótt 26. apríl 2011].
53 Hér er stuðst við vef Niels Jensen, Dansk literaturpriser: http://www.litteraturpr-
iser.dk/df.htm#HCAndersen og http://www.litteraturpriser.dk/dkdiv.htm#HCA
Medaljen [sótt 24. apríl 2011].
54 Hér er stuðst við vef iBBy, „Hans Christian Andersen Awards“, International Board
on Books for Young People: http://www.ibby.org/index.php?id=273 [sótt 24. apríl
2011].
55 Sjá Maria Davidsen, „Grundlag for evaluering“, Nu skulle vi høre! Sammenfatning
og analyser af H.C. Andersen 2005, ritstj. Johs. Nørregaard Frandsen, Odense: Syd-
dansk Universitetsforlag, 2007, bls. 141.
JÓN KARL HELGASON