Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 92
92
ir af. Ekkert skapar eins lifandi samband við þá einsog leiði þeirra,
og að ganga þangað og geta lagt höndina á grænan grassvörðinn og
fundið hjarta fortíðarinnar bærast í skauti jarðarinnar. Þegar maður
hefur gert það, veit maður með vissu reynslunnar að þetta fólk var
alt til, og þá getur maður með krafti hugans vakið það upp, til lífs
aftur hið innra með sér sjálfum.59
Mörg þeirra dæma um helga dóma Prešerens og Andersens sem fjallað
var um hér að framan fela í sér merkinguna: „Hér er staðurinn“. Þegar
árið 1872 skilgreindi nýstofnað samband slóvenskra rithöfunda sögulegt
mikilvægi æskuheimilis Prešerens í Vrba með því að afhjúpa þar minning-
arskjöld um skáldið. Er talið að um 6.000 manns hafi gert sér ferð þangað
til að taka þátt í þeirri athöfn.60 Rúmum áratug síðar var afhjúpaður bauta-
steinn um Prešeren við Bled-vatn með hendingum úr Skírninni í Savíku og
„Sonnettusveig“ en staðurinn er að nokkru leyti sögusvið fyrrnefnda ljóðs-
ins. Nýlegra dæmi af sama tagi er minningarskjöldur eftir Albin Ambrožič
sem afhjúpaður var á framhlið kirkju Jóhannesar skírara í Trnovo, skammt
frá miðborg Ljúblíana, árið 1988. Á þessum stað, árið 1833, sá Prešeren í
fyrsta sinn Juliju Primic, sautján ára stúlku af góðum ættum sem hann átti
afar litla möguleika á að giftast en orti um sín frægustu ástarljóð (hann fól
meðal annars nafn hennar í upphafsstöfum ljóðanna í „Sonnettusveig“). Á
minningarskildinum eru hendingar úr einu þessara ástarljóða og lágmynd
af skáldinu. Sams konar merkingar má finna á nokkrum þeirra húsa þar
sem Andersen bjó í Kaupmannahöfn. Stundum er unnið markvisst að því
að laða gesti á þessa pílagrímastaði; í tilefni af 200 ára afmæli skáldsins var
risherbergi sem hann bjó í við Vingårdsstræde til dæmis opnað tímabund-
ið fyrir almenningi.61 Skipulagðar heimsóknir skólabarna á fæðingarstað
Prešerens í Vrba og Andersen-safnið í Óðinsvéum eru sömuleiðis til marks
um uppfræðslu í anda menningarlegrar þjóðernisstefnu en stundum vekja
merkingar í anda Hic locus est einfaldlega athygli vegfarenda á að þeir séu
staddir á söguslóðum.
Í tilviki Andersens beinist þessi starfsemi ekki aðeins, og jafnvel ekki
aðallega, að heimamönnum. Danska ævintýraskáldið hefur um langa hríð
59 Guðbrandur Jónsson, „innan um grafir dauðra“, Innan um grafir dauðra og aðrar
greinar, Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja h.f., 1938, bls. 5–22, hér bls. 8–9.
60 Jože Šifrer, „Prešeren’s birth house“, bls. 37.
61 Odense Bys Museer, „H.C. Andersen i Vingårdsstræde“: af http://museum.odense.
dk/viden-om/hc-andersen/hca-i-vingaardsstraede.aspx [sótt 24. apríl 2011].
JÓN KARL HELGASON