Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 93
93
leikið stórt hlutverk í menningartengdri ferðaþjónustu. Í niðurlagi einnar
greinar sinnar um meintan fæðingarstað Andersens í Óðinsvéum sagði
H.G. Olrik að erlendu ferðamennirnir sem kæmu í bæinn til að sjá hvar
Andersen hefði fæðst enduðu í raun á því „að standa við – gröf Hamlets“.62
Þessi orð minna líka á að sú opinbera helgifesta þjóðardýrlinga sem hér
hefur verið til umræðu er í og með viðbragð við eftirspurn gesta eftir
áþreifanlegum ummerkjum um fortíðina og þörf þeirra fyrir „upplifun“.
Forvitnilegt er að skoða nýju Andersen-bókmenntaverðlaunin í þessu ljósi.
Fyrsti verðlaunahafinn var J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry
Potter, en í tengslum við komu hennar til Óðinsvéa var efnt til sérstakr-
ar Harry Potter-hátíðar í bænum. Hápunktur dagskrárinnar var athöfn í
tónleikahöllinni þar sem Rowling tók við verðlaunafénu úr hendi dönsku
prinsessunnar. Að einhverju leyti var um gagnkvæma skírn eða vígslu að
ræða þar sem J.K. Rowling fékk Andersen-nafnbót og H.C. Andersen
var baðaður í ljóma breska metsöluhöfundarins. Þessum atburði var lýst
á heimasíðu Andersen-safnsins sem töfrastund þar sem „tvö af þekktustu
ævintýraskáldum heims hittast“.63 En um leið var Rowling pílagrímur á
heimaslóðum Andersen, vera hennar í Óðinsvéum þjónaði í og með því
hlutverki að draga enn fleiri pílagríma til bæjarins, helst alla leið inn í
helgiskrínið við Hans Jensens Stræde.
Lokaorð
Hér að framan hefur verið reynt að varpa ljósi á það hvernig minning skáld-
anna Prešerens og Andersens hefur verið ræktuð opinberlega á forsendum
menningarlegrar þjóðernisstefnu. Enda þótt þeir hafi svo að segja verið
jafnaldrar og mótast hvor með sínum hætti af fagurfræðilegum hugmynd-
um rómantíkurinnar voru þeir afar ólíkir sem einstaklingar og skáld. Val
á þeim sem þjóðskáldum markast af því hve pólitískar aðstæður í Slóveníu
og Danmörku voru ólíkar um og eftir miðja nítjándu öld. Í fyrra tilvik-
inu var um að ræða kaþólska þjóð sem vildi brjótast til sjálfstæðis, í síðara
tilvikinu einvaldsríki mótmælenda sem var að þróast í lýðræðisátt. Þegar
62 H.G. Olrik, „Da „H.C. Andersens Hus“ blev købt“, Hans Christian Andersen. Und
ersøgelser og kroniker 1925–1944, Kaupmannahöfn: H. Hagerup, 1945, bls. 35–39,
hér bls. 39.
63 Odense Bys Museer, „J.K. Rowling får H.C. Andersen Litteraturpris“, 2. september
2010: http://museum.odense.dk/det-sker/det-sker/presse/2010/rowling-i-odense.
aspx [sótt 14. apríl 2011].
MENNiNGARLEGiR ÞJÓÐARDÝRLiNGAR EVRÓPU