Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 103
103
Heimurinn og jörðin sem líkami Guðs er guðfræðilegt líkan sem felur
í sér nýja möguleika á að skilja eðli guðdómsins og mikilvægi heimsins og
náttúrunnar. Guðdómurinn er að mati McFague ekki fjarlægur stjórnandi
heldur fremur nálægur vinur. Hinn kristni Guð gerðist hold og bjó í heim-
inum.14 Líkamslíkingunni er ætlað að beina athyglinni að hinu nálæga,
að jörðinni og náttúrunni sem náunga okkar. Að kalla náttúruna náunga
í guðfræðilegri orðræðu vísar til hins gyðingkristna kærleiksboðorðs um
að elska náungann eins og sjálfan sig.15 Jörðin og náttúran er sá staður þar
sem við finnum Guð, staðhæfir McFague. Við mætum Guði í heiminum,
í náttúrunni sem og í líkömum þess fólks sem þjáist og þarf á öðrum að
halda. Meðal hinna þjáðu megi ekki síst finna konur og börn.16
Eins og þetta sýnishorn úr vistguðfræði McFague ber vitni um er guð-
fræði stöðugt samtal við samfélag og menningu í sögu jafnt sem samtíð.
Guðshugmyndir eru í sífelldri mótun og markast af þeirri þekkingu, reynslu
og heimsmynd sem ræður ríkjum hverju sinni. Þannig hefur umræðan um
umhverfið, náttúruna og nú síðast um hnattræna hlýnun jarðar af manna
völdum (e. global warming) sett sín spor innan guðfræðilegrar orðræðu
um guðsmyndir. Meginmarkmið þessarar greinar er að varpa ljósi á túlk-
un femínískra vistguðfræðinga, sem skrifa innan kristinnar hefðar, á því
að hvaða marki umhverfis- og loftslagsvandamál samtímans snerta guð-
fræðina og þá sérstaklega kristna guðsmynd. Sérstökum sjónum er beint
að framlagi bandaríska guðfræðingsins, Sallie McFague sem er brautryðj-
andi á sviði femínískrar vistguðfræði á heimsvísu en hún hefur skrifað um
þau mál í um aldarfjórðung. McFague er sannfærð um að guðfræðingar
í kristinni hefð verði að taka alvarlega þá gagnrýni sem beinst hefur að
þætti guðfræðinnar í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál samtímans.
Spurningar greinarinnar hverfast um hvaða guðfræðilegu áherslubreyting-
ar þurfi að verða á kristinni guðmynd til að mæta þeirri gagnrýni af alvöru
og hvaða siðfræðilegu gildum sé einkum haldið á loft í því sambandi. Sú
spurning sem að lokum er brýnt að fá svar við er hvort femínísk vistguð-
fræði McFague sé það róttæk að hún ógni velferð mannsins í heiminum á
einhvern slíkan hátt að ekki sé unnt að samþykkja hana.
14 Jóh. 1, 14.
15 3 Mós. 19, 18; Matt. 22, 36–40; Róm. 13, 8–10.
16 Sallie McFague, Models of God, bls. 97–123.
LOFTSLAGSBREyTiNGAR Í GUÐFRÆÐi