Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 107
107
flokk.27 Það breyttist árið 1975 með tilkomu bókar Rosemary Radford
Ruether, New Woman, New Earth, sem áður er getið. Sú bók gaf tóninn
með því að tengja saman kúgun kvenna og illa meðferð náttúrunnar.
Femínísk umræða um kúgun, drottnun og ofbeldi
Kúgun (e. oppression) og drottnun (e. domination) eru lykilhugtök í grein-
ingu femínískra fræða á bágri samfélagslegri og menningarlegri stöðu
kvenna. Andstæða þessara hugtaka er félagslegt réttlæti (e. social justice)
sem felur í sér hugmynd um hið góða líf borgara í samfélagi. Að mati
heimspekingsins iris Marion young byggist hið eftirsóknarverða, góða
líf einstaklinga á eftirfarandi gildum: a) að geta þroskað með sér og notað
eigin hæfileika, þar á meðal tjáð eigin reynslu, og b) að geta tekið sjálfstæð-
ar ákvarðanir um athafnir sínar og forsendur þeirra.28 Samkvæmt young
felst kúgun í kerfisbundnu, stofnanalegu ferli sem hindrar fólk í því að
nýta hæfileika sína í samfélagslegu samhengi. Hún orðar það líka á þann
veg að um kúgun sé að ræða þegar stofnanaleg, félagsleg ferli hindri fólk í
félagslegum samskiptum, svo sem því að tjá tilfinningar sínar og sjónarmið
frammi fyrir öðrum.29 Félagslegar aðstæður kúgunar eru iðulega af efnis-
legum toga, þar sem hlutum er haldið frá fólki eða hreinlega teknir frá
því en einskorðast þó ekki við slíkar aðstæður. Í huga young getur kúgun
tekið á sig ýmsar birtingarmyndir, svo sem arðrán (e. exploitation), jöðrun
(e. marginalization), áhrifaleysi (e. powerlessness), menningarbundna kúgun
(e. cultural imperialism) og síðast en ekki síst, ofbeldi (e. violence).30
Hvað telst þá drottnun (e. domination) samkvæmt túlkun young? Svar
hennar er að drottnun felist í stofnanalegum aðstæðum sem banni fólki eða
27 Ein mikilvæg undantekning frá þessu er Mary Daly sem hóf femíníska gagnrýni
strax árið 1968 með bók sinni The Church and the Second Sex, New york: Harper
Colophon Book. Titill bókarinnar vísar til bókar Simone de Beauvoir um hitt kynið
(Le deuxième sexe, 1949) sem út kom tæpum tveimur áratugum áður. Árið 1973 kom
út bók Mary Daly, Beyond God the Father. Toward a Philosophy of Women’s Liberation,
Boston: Beacon. Bók Daly gjörbreytti sýn fjölda kristinna kvenna á stöðu sína í
kirkju og samfélagi á þeim tíma. Mary Daly benti frá upphafi skrifa sinna á ofbeldi
karla gegn konum, án þess þó að tengja það ofbeldi framferði mannsins gagnvart
náttúrunni.
28 Hin femínísku gildi má auðvitað orða á mismunandi hátt en hér er byggt á heim-
spekingnum iris Marion young, Justice and the Politics of Difference, Princeton:
Princeton University Press, 1990.
29 iris Marion young, Justice and the Politics of Difference, bls. 38.
30 Sama rit, bls. 39–65.
LOFTSLAGSBREyTiNGAR Í GUÐFRÆÐi