Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 124
124
útgáfu bréfsins en það var um seinan; fyrsta latneska útgáfan hafði þegar
komið út í Basel, París og Antwerpen sama ár og eftir þessari gerð var þýtt,
meðal annars á þýsku. Þetta hafði í för með sér að í flestum afritum og
uppskriftum af bréfinu er Ísabellu hvergi getið.
Þýðingar bréfsins á þjóðtungur ýmissa landa hlutu ekki mikla útbreiðslu
en það gerði aftur á móti latneska þýðingin, einkum meðal lærðra manna.
Í lok 15. aldar var hún gefin út hátt í tíu sinnum: Í Róm kom hún þrisv-
ar sinnum út árið 1493 og á árunum 1493 og 1494 sex sinnum í París,
Basel og Anwerpen.20 Við þetta má bæta að bréf Kólumbusar er að finna í
ýmsum safnritum með ferðasögum sem var safnað saman á bók og marg-
endurútgefin víða í Evrópu.
Fyrsti textinn um landafundina í Vesturheimi sem birtist í þýskum mál-
heimi var þýðing á bréfi Kólumbusar til Gabríels Sánchez þar sem hann
segir frá fyrstu Ameríkuför sinni og var það þýtt úr latínu.21 Þýðingin var
gefin út í Strassborg (nú í Frakklandi) árið 1497. Í kjölfarið fylgdu þýð-
ingar á önnur tungumál í Evrópu, til að mynda ítölsku, frönsku, hollensku
og ensku.
Af grein sem Þórhallur Þorgilsson skrifaði árið 1951 og birtist í Revista
Universitaria í Salamanca22 má skilja að Kólumbusarbréfið svonefnda sé til
í íslenskri þýðingu. Hann fer hins vegar ekki nánar út í þá sálma í greininni
sem hann ritaði eftir minni, eins og hann víkur að í lok hennar, vegna þess
að hann hafði ekki aðgang að heimildum sínum, þá staddur suður á Spáni.23
Í grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 194224 vitnar hann aftur á
móti í handrit eitt í handritasafni Landsbókasafnsins sem hefur að geyma
svonefndan Kólumbusarþátt, „Þáttur af Colombo um hans landa uppleitan
og ókunnar siglingar“, skrifaður 1660 eða 1680. Nú má vera að Þórhallur
hafi talið þáttinn um Kólumbus vera íslenska þýðingu á hinu svokallaða
Kólumbusarbréfi eða byggja á því að miklu, jafnvel öllu leyti. Þátturinn er
í megindráttum endursögn á þessu bréfi Kólumbusar en ýmsu hefur verið
20 Frauke Gewecke, Wie die neue Welt in die alte kam, bls. 45–46; Henry Harrisse,
Lettre de Christophe Colomb, bls. 7.
21 Henry Harrisse, Lettre de Christophe Colomb, bls. 8–9.
22 Þórhallur Þorgilsson, „Ecos españoles en islandia“ í Revista Universitaria, Sala-
manca, 1951, bls. 15–16.
23 Grein Þórhalls fjallar um íslenskar þýðingar á spænskum bókmenntaverkum og
ýmsum textum.
24 Þórhallur Þorgilsson, „Þegar Kólumbus fann Ameríku“, Lesbók Morgunblaðsins,
35/1942, bls. 321–323 og 36/1942, bls. 332–336, hér 36/1942, bls. 332.
ERLA ERLENDSDÓTTiR