Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 126
126
Pedro Mártir de Anglería: Bréf og frásagnir
Pedro Mártir de Anglería29 (1459–1526) hefur gjarnan verið kallaður
„fyrsti sagnaritari Ameríku“30 en hann var skipaður í embætti annálarita
spænsku krúnunnar á þriðja áratug 16. aldar. Hann fæddist og ólst upp í
Mílanóhéraði á Ítalíu. Á unga aldri fór hann til Rómar og dvaldi þar í fáein
ár en flutti sig síðar um set til Spánar þar sem hann sinnti ýmsum störfum
við spænsku konungshirðina.
Af einskærum áhuga tók hann að skrifa hjá sér sögur um nýfundin lönd.
Hann mun hafa heyrt ferðasögur af vörum Kólumbusar og samferða manna
hans sem og lýsingar á náttúrufari og mannfólki í nýfundnum heimi.
Heimildarmenn hans voru ekki einungis Kólumbus og fyldarmenn held-
ur og margir aðrir sem lögðu leið sína til Nýja heimsins, svo sem Diego
Kólumbus, Ramón Pané klerkur og skrifari, Vasco Núñez de Balboa er
fyrstur Evrópumanna leit Kyrrahafið, Martín Fernández de Enciso land-
könnuður og kortagerðarmaður, Gonzalo Fernández de Oviedo sagnarit-
ari, og að auki sæfarar, skipstjórar og stýrimenn sem voru í siglingum og
landakönnun á þessum áratugum.31 Mártir de Anglería ritaði samvisku-
samlega niður allar frásagnir af landafundunum á latínu. Enn fremur hafði
hann aðgang að öllum textum, skýrslum og skjölum um nýfundin lönd og
eyjar sem bárust til Spánar þessa fyrstu áratugi landafundanna. Þess má
geta að Mártir de Anglería steig aldrei fæti á land í Vesturálfu sem hann þó
skrifaði um í rúm þrjátíu ár.
Mártir de Anglería átti í bréfaskiptum við vini og vandamenn á Ítalíu. Í
bréfum sínum segir hann meðal annars frá „þessum Kólumbusi sem fann
lönd ... og gull“.32 Það var einkum fyrir þessi bréfaskipti sem aukin vit-
neskja um landafundina barst til Ítalíu en að margra mati hafði Spánverjum
verið mikið í mun að slíkar fréttir bærust ekki út fyrir landsteinana svo að
þeir einir mættu sitja að nýfundnum auðæfum.33 Þeim varð ekki kápan
úr því klæðinu því einhver virðist hafa komist yfir handrit sem Mártir de
29 Nafn hans á ítölsku er Pietro Martire de Anghiera.
30 Ramón Alba, „introducción. Pedro Mártir de Anglería: Su vida y su obra“ í Pedro
Mártir de Anglería, Décadas del Nuevo Mundo, Madríd: Ediciones Polifemo, bls.
Vii–XLiii, hér bls. XXVii.
31 Sama rit, bls. XXViii–XXX.
32 Bréfið er stílað á Juan Borromeo og dagsett 14. maí 1493. Pedro Mártir de Anglería,
Cartas sobre el Nuevo Mundo, Madríd: Ediciones Polifemo, 1990, bls. 25.
33 Max Böhme, Die grossen Reisesammlungen des 16. Jahrhunderts und ihre Bedeutung,
Amsterdam: Meridian Publishing, 1962, bls. 1.
ERLA ERLENDSDÓTTiR