Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 155
155
og gamanþáttaraðir, s.s. bandarísku kvikmyndina Wag the Dog (1997) og
enska myndaflokkinn Broken News sem sýndur var í Ríkissjónvarpinu undir
heitinu Fréttahaukar sama ár og Sigtið var sýnt á Skjá einum. Broken News
er þannig sterk háðsádeila þar sem framsetning hinna sviðsettu frétta er
eins og í helstu sjónvarpsfréttamiðlum nútímans, bæði staðbundnum og
alþjóðlegum.14
Eru fréttir og heimildamyndir þá texti en ekki veruleiki? Broken News
fæst ekki við raunverulega viðburði heldur dregur fram formeinkenni
fréttaþátta og hið sama á við um Sigtið. Nú kunna fréttir og fréttatengt efni
að endurspegla veruleikann að einhverju leyti þó að þær geti aldrei miðlað
nema litlum hluta hans. Það breytir ekki hinu að allt eru þetta textar og
það er það eðli þeirra sem fengist er við í sviðsettum heimildamyndum.
Hinar sviðsettu heimildamyndir eru í eðli sínu póstmódernískt viðbragð
við þeim efa sem upp er kominn um „veruleikann“ og flytja okkur að
einhverju leyti þann sannleik að fréttir og heimildamyndir séu eðlislíkar
leiknu efni.15
Sviðsettar heimildamyndir voru sjaldgæfar fyrir nokkrum áratugum
en á seinustu áratugum hefur raunveruleikablekkingin verið rofin og allur
sannleikur er dreginn í efa, hvort sem hann nefnist sagnfræði, fréttir eða
14 Um þennan þátt fjallaði ég á sínum tíma í grein á netinu („Brotakennd heims-
mynd“, Múrinn 25. nóv. 2006) en annars hlaut hann fremur litla athygli á Íslandi.
Velta má fyrir sér hvort það tengist viðkvæmni fjölmiðla andspænis gagnrýnni
umfjöllun og tilraunum þeirra til að hafa stjórn á því hvernig sú gagnrýni fer fram.
Eins og ég benti á í þeirri grein er boðskapur þáttarins sá að fréttirnar séu eins
og hvert annað staðnað bókmenntaform og að þetta form ráði inntaki fréttanna.
önnur skelfileg skilaboð þáttanna eru þau „að enginn er neinu nær, þeim mun
betur sem fólk „fylgist með fréttum“, þeim mun minna veit það um hvað gerist í
heiminum“.
15 Hugmyndin um fréttina og heimildamyndina sem form frekar en raunveruleika
er á sinn hátt arftaki sams konar umfjöllunar um ljósmyndina sem finna má hjá
póststrúktúralistum eins og Roland Barthes (La Chambre Claire, 1980) og Susan
Sontag (On Photography, 1977). Bæði eru þau mjög upptekin af flóknu sambandi
myndar og raunveruleika. Eins og þau hafa bæði bent á þurfa ljósmyndir á því að
halda að þær séu taldar sannar og raunverulegar (og hið sama hlýtur að eiga við um
fréttir og heimildamyndir). Þannig verði fræg ljósmynd Roberts Capa af hermanni
úr spænska lýðveldishernum á því augnabliki sem hann er skotinn (sem var tekin
og birtist fyrst á prenti í september 1936) lítils virði ef hún var sviðsett (sbr. Susan
Sontag, Regarding the Pain of Others, New york: Farrar, Straus & Giroux, 2003, bls.
55). Nefna má íslenskt dæmi um mikilvægi þess að fréttir séu ekki sviðsettar, þegar
fréttamaðurinn Lára Ómarsdóttir sagði upp störfum á Stöð 2 eftir að heyrst hafði
til hennar ráðgera að sviðsetja eggjakast í mótmælum við Norðlingaholt þann 23.
apríl 2008 en hún sagðist sjálf hafa látið þessi orð falla í gamni.
ALLUR RAUNVERULEiKi ER FRAMLEiDDUR