Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 158
158
menningarvitans, samband menningar og neyslu og hina miklu „meðferð-
armenningu“ á Íslandi.
Í Sigtinu koma fyrir flest almenn einkenni sjónvarpsþátta sem verða
fyrst og fremst spaugileg í samhenginu. Þannig er tónlist í Sigtinu stund-
um skemmtilega óviðeigandi og afhjúpar þannig klisjur afþreyingarmenn-
ingarinnar, þar á meðal fréttaþátta eins og Kastljóssins sem nota sams konar
tónlist ættaða úr afþreyingariðnaðinum. Hvergi er þetta meira áberandi
en í þættinum „Glæp og refsingu“ þar sem tónlistin er afar dramatísk og í
ætt við meistara spennukvikmyndatónlistar eins og Hans Zimmer en á sér
íslenska hliðstæðu í þáttum eins og Sönnum íslenskum sakamálum (1998–
2002).22 Á hinn bóginn er talsvert misræmi milli þess sem sést í mynd (sem
eru misheppnaðar tilraunir Frímanns til að öðlast innsýn í heim glæpa-
mannsins) og dramatísks þunga tónlistarinnar og þetta misræmi er drif-
kraftur gamanseminnar.23
Þegar viðkvæm mál koma fyrir í íslenskum sjónvarpsþáttum um sam-
félagsmál (eins og Kastljósinu) er hefð fyrir því að heimildarmenn sem ekki
vilja koma fram undir nafni tali með óþekkjanlegri vélrænni röddu og
sitji í myrkri og þó að sjálfsagt sé þetta oftast gert að ósk viðmælandans
hefur það þau jákvæðu hliðaráhrif fyrir þáttagerðarmenn að formeinkenn-
ið sendir áhorfendum ótvíræð skilaboð: hér er sannarlega viðkvæmt mál á
ferð. Í Sigtinu er þessu bragði beitt í þættinum „Áráttum og þráhyggjum“
sem hefst á mannveru í skugga sem talar með afbakaðri röddu um leið-
réttingaráráttu sína.24 Þannig er því komið rækilega á framfæri að hér sé
22 Í kynningu þáttarins er ofurdramatísk tónlist leikin undir svarthvítum myndum af
fangaklefa á meðan sögumannsrödd Frímanns talar um ólánsamar manneskjur sem
skilja ekki mun á réttu og röngu (i, 5, 0:00–0:21). Tónlistin í Sigtinu er öll samin af
Birgi Ísleifi Gunnarssyni en hið þekkta kynningarstef þáttanna Sönn íslensk sakamál
er á hinn bóginn útgáfa af laginu „Over“ með ensku hljómsveitinni Portishead.
Sigursteinn Másson samdi handrit að fyrstu syrpu þáttanna en var síðan áfram þulur
og siðvenja er á Íslandi að kenna þættina við hann þó að þeir hafi verið gerðir af
Birni Brynjúlfi Björnssyni.
23 Áhersla þáttanna á form glæpsins kemur líka fram í því að þegar félagi Frímanns,
Grétar Bogi Halldórsson, hefur verið handtekinn eftir að Frímann guggnar ekki
aðeins á tilraun sinni til að flytja inn fíkniefni heldur ákveður líka að ljóstra upp
um þátt Grétars Boga í tilrauninni (en að því er virðist ekki um sinn eigin þátt),
kemur Frímann í heimsókn til hans í fangelsið og þá notar Grétar Bogi slanguryrðið
„skvíla“ (=koma upp um) sem hefur undirheimahljóm. Frímann fyllist greinilega
meiri hryllingi yfir þessum sakamannafrasa vinar síns en aðstæðum hans í fangavist-
inni yfirleitt (Sigtið i, 5, 15:46–15:55).
24 „Þetta lýsti sér bara þannig að ég … ég er alltaf að leiðrétta fólk í kringum mig og
ég … get varla talað við neinn“ (Sigtið i, 2, 0:00–0:10).
ÁRMANN JAKOBSSON