Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 166
166
Eins og venjulega er Frímann sjálfur hluti af undirtexta þáttarins. Fram
kemur að hann er sannarlega tilbúinn að taka þátt í jákvæðnileik Halldórs
og Hjalta en snýr hins vegar út úr öllu sem Sigurður segir. Þegar Sigurður
síðan dáleiðir Frímann sem sýnidæmi um hvernig meðferð hann beiti á
sjúklinga sína er Frímann grátandi og á greinilega við mikil vandamál að
stríða sem eru ekkert frekar rædd í þættinum heldur látið sem ekkert hafi
gerst.48 Aldrei er ljóstrað upp um hvernig faðir Kralli trúður var í raun og
veru. Við erum skilin eftir með undirtexta, hálfsagðar sögur og torræðar
tilvísanir og þar á meðal vísbendingu um að ekki sé heldur allt fullkomið
í lífi Frímanns sjálfs. Ekki kemur fram hvaða leiðindamál kom upp á milli
bræðranna eða hvaða dómsmáli Kralli trúður lenti í forðum; áhorfendur
eru látnir gruna margt.49 Það er einkenni Sigtisins að hnýta ekki alla lausa
enda heldur skilja áhorfendur eftir með grun frekar en vissu.50 Þannig
snýst heimildamyndin gjarnan um það sem er falið, ekki síður en það sem
er afhjúpað, og einmitt þetta eðli hennar er dregið fram í hinum sviðsettu
heimildamyndum.
Tvenns konar skilaboð
Í flestöllum þáttum Sigtisins er mikill munur á þeim skilaboðum sem
Frímann virðist ætla sér að senda og því sem að lokum leitar upp á yfirborð-
ið. Þannig á þátturinn „Listamaðurinn“ að fjalla um líf listamannsins,51 en
48 Sigtið i, 3, 11:12–13:27.
49 Sigtið i, 8, 19:54–20,21.
50 Þannig segir Natan þráhyggjusjúklingur Frímanni frá atviki í Fjarðarkaupum
þegar hann „missti sig aðeins“ en lýsir því aldrei nákvæmlega hvað gerðist heldur
aðeins að það „endaði með handtöku“ (Sigtið i, 2, 7:38–8:40). Þá kemur aldrei
fram við nákvæmlega hvað hinn hreyfihamlaði Sigurður Ragnarsson vinnur hjá
fyrirtæki sínu í þættinum „Fordómum“ (sjá nmgr. 60). Frímann sjálfur reynist eiga
dularfullan enskan vin sem er klæddur nákvæmlega eins og hann og er ef til vill
stílfyrirmynd hans en felur sig þegar sá enski kallar á hann úti á götu í Lundúnum.
Dálæti Frímanns á Lundúnum er raunar leiðarstef í þáttunum (einkum seinasta
þætti fyrstu syrpu Sigtisins, „… með Frímanni Gunnarssyni“).
51 „Listamaðurinn“ var reynsluþáttur (e. pilot) og þannig framleiddur fyrstur en á
hinn bóginn var hann ekki sýndur fyrst á Skjá einum. Á dvd-disknum (Sigtið með
Frímanni Gunnarssyni) er hann orðinn fyrsti þátturinn. Í athugasemdum aðstand-
enda Sigtisins á diskinum (þeir tala allir fjórir undir þessum þætti) kemur fram að
í fyrstu gerð þessa reynsluþáttar var Frímann ekki eini umsjónarmaður (eða sögu-
mannsrödd) þáttanna heldur áttu þeir Grétar Bogi og Páll Bjarni Friðriksson að
vera jafn áberandi. Enn fremur var viðtal Frímanns við Stein Finn aðeins eitt af
mörgum atriðum í þættinum. Við gerð reynsluþáttarins kom hins vegar í ljós að
Frímann gekk best upp í þessu hlutverki og þar með var framtíð Sigtisins ráðin. Þá
ÁRMANN JAKOBSSON