Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Side 169
169
Það er ekki aðeins í þessu tilviki sem Frímann afhjúpar eigið ónæmi
og tilfinningaleysi. Hann hneigist almennt til að misskilja viðmælendur
sína, hunsa og vaða yfir þá. Áhugi hans á þeim virðist iðulega takmarkaður
og áhorfendur geta velt því fyrir sér hvort þetta geri Frímann sérstakan í
hópi fjölmiðlamanna eða dæmigerðan fyrir stéttina yfirleitt. Þegar líður á
syrpuna koma skapgerðargallar Frímanns æ betur í ljós og hann afhjúpar
þá einmitt þegar hann ætlar sér að afhjúpa samfélagsmein og sýna fram á
eigin skilning á þeim. Þannig kemur í ljós í „Þráhyggjum og áráttum“ að
Frímann er haldinn ýmsum áráttum sjálfur, er í senn snertifælinn, stjórn-
samur og ólæknandi „besserwisser“.58 Í þættinum um „fordóma“ afhjúpar
Frímann eigin fordóma æ ofan í æ, þrátt fyrir að hann tali þar sem víðsýnn
og upplýstur maður sem sé á móti fordómum. Hann leiðréttir þannig
stöðugt málfar útlendings í viðtali um hvernig útlendingum er tekið á
Íslandi.59
Þungamiðja fordómaþáttarins er viðtal við hinn hreyfihamlaða Sigurð
Ragnarsson sem Frímann hefur flokkað sem „fatlaðan“ og sést yfir það
sem ætti að blasa við flestum áhorfendum: í fyrsta lagi að Sigurður er ekki í
atvinnubótavinnu á skrifstofunni þar sem hann vinnur heldur virðist hann
þvert á móti vera forstjórinn (þó að það sé aldrei sagt berum orðum) og í
öðru lagi að maðurinn sem fylgir Sigurði á göngutúr er ekki „tilsjónarmað-
ur“ hans eins og Frímann hefur ítrekað kallað hann heldur þvert á móti
sambýlismaður hans og elskhugi.60 Raunar virðist Frímann aldrei átta sig á
58 Strax í upphafi er kynntur sá möguleiki (í viðtali við Brand Árnason geðlækni) að
Frímann sjálfur kunni að vera haldinn áráttu (þ.e. stjórnunaráráttu: hann grípur
fram í og stjórnar) (Sigtið i, 2, 1:03–2:53) og sú árátta kemur æ betur í ljós í sam-
skiptum Frímanns við áráttusjúklinginn Natan Jónsson sem kallar hann „félaga
í drykkjunni“ (Sigtið i, 2, 21:35–21:41). Frímann virðist ekki haldinn minni bet-
urvitringa- og leiðréttingarfíkn en sjúklingurinn þó að hann harðneiti að horfast
í augu við það og hegði sér jafnvel tilgerðarlega til að „sanna sakleysi“ sitt (sjá t.d.
Sigtið i, 2, 4:15–4:28). Þegar hann er síðan kynntur fyrir snertifíklinum Gunnari
Alfreðssyni (sem hafði verið svo langt leiddur af snertiáráttunni að hann „sat fyrir
blaðburðarfólki og póstfólki“ til að snerta það, Sigtið i, 2, 13:18–13:21) kemur
fljótlega í ljós að Frímann er haldinn gagnstæðri fíkn og þolir alls ekki að láta snerta
sig (9:48–10:51), raunar svo illa að hann tryllist að lokum þegar Gunnar verður
ágengur við hann (13:52–14:15). Þannig rennur sögumannsröddin að lokum saman
við viðfangsefnið í þessum þætti.
59 Sigtið i, 6, 15:20–16:30.
60 Það er gefið í skyn snemma í viðtalinu að Sigurður sé forstjóri fyrirtækisins þar
sem Frímann hittir hann (2:23–3:06) og eins blasir við, þegar Frímann spyr: „Hvað
búið þið mörg hérna?“ (og gefur sér að Sigurður búi á einhvers konar sambýli fyrir
fatlaða), að hann á heimili sitt sjálfur (17:33–17:34).
ALLUR RAUNVERULEiKi ER FRAMLEiDDUR