Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 173
173
Þegar grannt er skoðað má sjá þessi umfjöllunarefni í flestöllum
þátt um Sigtisins. Betrunar- og meðferðarmenningin er þannig skoðuð í
„Dauðanum“ en sérstaklega í „Þráhyggjum og áráttum“ sem er prýðileg
úttekt á orðaforða og framsetningu hinnar íslensku meðferðarmenningar
á 21. öld.
Í „Þráhyggjum og áráttum“ er rætt við sjúklinga geðlæknisins Brands
Árnasonar, föður Kára og Steins Finns, og fjallað um tilraunir þeirra til að
ná „bata“. Lýsing Brands er alls ekki ýkt; hann er þvert á móti fremur geð-
þekk persóna. Enda beinist ádeilan alls ekki gegn öfgafullum geðlæknum
eða stétt þeirra sem slíkri heldur hinni samfélagslegu tilhneigingu til að
skilgreina hvaðeina sem sjúkdóm sem hægt sé að meðhöndla í heilbrigð-
iskerfinu.78 öll hugtakanotkun meðferðarinnar er í kunnum klisjufarvegi:
stöðug umræða um „bata“, að lifa „nánast eðlilegu lífi“, „baráttuna“ við
sjúkdóminn, „þrepakerfi“ sjúklinganna („einn dag í einu“), mikilvægi þess
að „viðurkenna vandann“ og um „hugrekki“ þeirra sem koma fram og
segja sögu sína. Hún verður hins vegar fremur hjákátleg í ljósi þess að ekki
er um viðurkenndan sjúkdóm að ræða.
Hitt meginumfjöllunarefni þáttanna er staða listamanna og skemmti-
krafta í samfélaginu.79 Í „Listamanninum“ kemur fram grátbroslegt
78 Brandur Árnason er hinn góðlátlegasti maður og talar af skynsemi og öfgalaust
þó að hann sé rogginn (þegar Frímann segir að greining hans á stjórnunaráráttu
Frímanns sé aðeins skoðun hans bætir Brandur við „sem sérfræðingur þá“, Sigtið
i, 2, 2:55–2:56). Í þeim þætti kemur hann fyrst og fremst fram sem góðlátlegur
hjálparmaður „áráttusjúklinganna“ en í þættinum um Stein Finn Brandsson (Sigtið
i, 1) birtist hann hins vegar sem faðir bræðranna Steins Finns og Kára Brands
sem hefur alið þá upp til að sinna listum þó að þeir hafi raunar sjálfir beðið um að
fara í íþróttir (Sigtið i, 1, 3:19–3:44), í stuttu máli sérfræðingurinn sem veit betur
en fólk sjálft hvað því er fyrir bestu. Hið sama gildir um átrúnaðargoð Frímanns,
Joseph Blunden. Snobb Frímanns fyrir þessum ímyndaða spekingi er ef til vill
hjárænulegt, en það sem er haft eftir Blunden sjálfum í þáttunum um harðstjórn
gleðinnar og hvernig ekki beri að fordæma þunglyndi (t.d. Sigtið i, 8, 12:32–13:15)
er óvitlaust.
79 Sigtismenn halda áfram að beina sjónum að þessu málefni í seinni syrpunni en
nöturlegast verður það í þættinum „Listalestinni“ (Sigtið ii, 6) þar sem Frímann
fer í kringum landið ásamt „Flippskunkunum“, þremur mönnum á fertugsaldri
sem hegða sér eins og táningar til að ná til barnanna með svipuðum hætti og
sjónvarpsmennirnir Auddi og Sveppi eru frægir fyrir. Þar er „skáldið“ Frímann í
algjöru aukahlutverki; hann er látinn sitja á stól í fremur hversdagslegum sjopp-
um og ónáða gesti með upplestri á meðan „Flippskunkarnir“ skemmta börnum
þorpsins með uppátækjum sínum. Vitaskuld er Frímann sem endranær fórnarlamb
eigin hégóma og snobbs; hann hafði troðið sér í þessa „listalest“ í von um að eyða
tíma með hinum vinsæla tónlistarmanni Kára Brands.
ALLUR RAUNVERULEiKi ER FRAMLEiDDUR