Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 181
181
Það er einmitt persónulegur þroski rifthöfundarins sem fangar hug
okkar en við fáum að fylgjast með honum eftir því sem sögunni vindur
fram; úr sálrænni innilokun til eins konar frelsunar. Við höfum hins vegar
ekki sérstakan áhuga á því að greina á milli rithöfundarins Emmanuels
Carrère og samnefndrar söguhetju í Un roman russe – hann gerir það ekki
sjálfur og staðhæfir auk þess að „bókin er skrifuð einsog skáldsaga, en allt í
henni er satt, fyrir utan örfá aukaatriði“.5
Í fljótu bragði virðist slíkur lestur ekki líklegur til að skila miklu, nema
með því að gaumgæfa hugtökin með framsæknum hætti. Að þessu leyti
mætti ef til vill fullyrða að sjálfsmyndin sé einfaldlega safn þátta sem gera
það kleift að staðfesta, án þess að flækja málið frekar, að einstaklingur sé
sannarlega sá sem hann segist vera, eða sá sem við höldum að hann sé; það
er að segja, þær upplýsingar sem skráðar eru í vegabréf hans. Eða er hann
kannski heldur meira? Maður verður að spyrja sjálfan sig hvað það geti
verið sem móti sjálfsmynd einstaklings og að hvaða leyti „álit“6 annarra
sem og leyndarmálið, geti verið grundvallaratriði í mótun téðrar sjálfs-
myndar. Hvað ábyrgðina varðar, er nauðsynlegt að greina á milli hugtaks
hennar og hugtaksins „sektar“ og hver séu þá tengslin milli þeirra og „sak-
leysis“. Með þessu móti sýnum við fram á hvernig sjálfsmynd tiltekinnar
persónu – eða höfundar – getur sig hvergi hrært, þegar hún er mótuð af
leyndarmálinu, vegna þess að hún er í fjötrum ábyrgðartilfinningar sem
hún getur ekki losað sig úr nema þá að afhjúpa sjálfa sig um leið.
Að þekkja sjálfan sig
Hugtakið um sjálfsmynd (eða samsemd) einstaklings hefur á sér tvær hlið-
ar: önnur er hlutlaus og lögfræðilega stöðug, hin huglæg og tilfinningalega
brothætt, ekki síst vegna þess að hún mótast af áliti annarra. Með hlut-
lægri sjálfsmynd á ég við sjálfsmynd einstaklinga eins og hún kemur fram
í opinberum plöggum, hina lagalegu sjálfsmynd, sjálfsmynd yfirborðsins,
svo að segja.
5 Emmanuel Carrère, tilvitnun Baptiste Léger, í greininni „Le petit-fils de l’empire
éclaté“, Lire, mars 2007.
6 [„Álit“ er hér þýðing á franska orðinu „regard“ (augnaráð), sem Jean-Paul Sartre,
og fleiri nota á tiltekinn hátt, í þeim skilningi að þegar „annar“ eða „hinn“ horfir
á þig þá mótar hann þig um leið; með því að líta á þig, með því að gefa „álit“ sitt á
þér. Þýð.]
LEyNDARMÁL EMMANUELS CARRèRE AFHJúPUÐ