Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Síða 211
211
af þessu tagi lýsa skynreyndum en góð vísindakenning er bara handhægt
tæki til að fá yfirsýn yfir skynreyndirnar. Góð kenning er eins og gripur
gerður úr legókubbum, kubbarnir eru skynreyndirnar.
Raunspekingarnir töldu að hægt væri að sannreyna (e. verify) yrðingu
um skynreyndir. Leiðin til þess arna væri tilleiðsla. Það þýðir að maður
alhæfir út frá einstökum tilvikum. Tökum raunhæfinguna R: „Allir svanir
eru hvítir.“ Menn sjá hvern hvítan svaninn á fætur (vængjum?) öðrum en
sjá engin gagntilvik, enga svarta eða græna svani. Af því geta menn dregið
þá ályktun að yfirgnæfandi líkur séu á því að R sé sönn. Gagnstætt þessu
er engin lifandi leið að sannreyna frumspekilegar yrðingar (e. metaphysical
propositions). Yrðingar á borð við „Guð er til“ eða „Guð er ekki til“ verða
hvorki raktar til skynreynda né sannaðar með tilstuðlan rökvísinnar. Þessar
yrðingar eru því þekkingarlega merkingarlausar, þær svífa í lausu lofti, og
veita þar með enga þekkingu.22
Raunspekingarnir áttu margt sameiginlegt með Popper, til dæmis voru
þeir einvísindasinnar eins og hann en einvísindasinnar vilja draga nátt-
úru- og mannvísindi upp á sömu seil. Þeir töldu eðlisfræðina drottningu
allra raunvísinda og stærðfræðina helsta ráðgjafa hennar. Auk þess er hug-
mynd Poppers um að vísindin hefðu rökgerð (e. logical structure) stofnskyld
kenningum raunspekinganna. Þrátt fyrir það hafði hann margt við þær að
athuga:
Í fyrsta lagi taldi hann að raunspekingarnir legðu alltof mikið upp úr
greiningu hugtaka og heimspekilegri merkingarfræði. Þar sem merking
orða væri bundin siðvenju væri engin leið að eðlisákvarða hana, hvorki
með tilvísun til skynreynslu né nokkurs annars.
Í öðru lagi neitaði Popper því að frumspeki væri bara skýjaskraf. Til
dæmis hefði Empedókles sett fram frumspekilega tilgátu um að þróun ætti
sér stað í lífríkinu. Sú kenning verður að teljast vitleg í ljósi þess sem vís-
indin segja í dag. Enda eigi vísindin sér rætur í gagnrýninni meðhöndlun
á goðsögum og slíkar sögur eru frumspekilegs eðlis. Án þessara goðsagna
hefðu vísindin aldrei komist á koppinn.23
22 Meðal helstu fulltrúa raunspekinnar voru enski heimspekingurinn Alfred J.
Ayer og þýskur starfsbróðir hans, Rudolf Carnap, sem var ein helsta sprautan
í Vínarhópnum. Alfred J. Ayer, Language, Truth and Logic, 2. útg., New York:
Dover Press, 1946. Rudolf Carnap, „Überwindung der Metaphysik durch logische
Analyse der Sprache“, Erkenntnis, 2. bindi, 1932, bls. 219–241.
23 Karl Popper, Conjectures and Refutations, bls. 50. Karl Popper, Ský og klukkur, bls.
79.
AÐFERÐ OG AFSÖNNUN