Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 216
216
tekið tilraun eða athugun. Þetta hlýtur að veikja tiltrú okkar á tilleiðslu og
sannprófunum (e. verifications).
Til að gera illt verra getum við strangt til tekið ekki rökstutt kenningu
með tilvísun til reynslunnar. Kenningar eru settar fram í formi staðhæf-
inga og við getum aðeins rökstutt sannleiksgildi staðhæfinga með fulltingi
annarra staðhæfinga. Staðhæfing getur leitt röklega af annarri staðhæfingu
en ekkert leiðir röklega af reynslunni sem slíkri. Tala megi um grunn-
staðhæfingar (e. basic statements) en það eru staðhæfingar um einstaka við-
burði í rúmi og tíma. Slíkar staðhæfingar koma við sögu þegar reynt er að
afsanna kenningar með empirískum hætti. En reynslan getur ekki ákveðið
með einhlítum hætti hvort rétt sé að trúa grunnstaðhæfingu.29 Þegar allt
kemur til alls verða menn einfaldlega að ákveða án eiginlegra raka að þessi
eða hin grunnstaðhæfing sé nothæf þangað til annað reynist sannara.30
Í sjötta lagi er afsönnunin, ekki sönnunin, burðarás góðra vísinda. Það
mælir ekkert röklega gegn því að afsanna megi tilgátu.31 Það sést af eftir-
farandi dæmi:
1. forsenda: Ef það er satt að allir svanir séu hvítir þá er þessi svan-
ur hvítur.
2. forsenda: Þessi svanur er ekki hvítur
Niðurstaða: Það er ekki satt að allir svanir séu hvítir.
Það er ekkert röklega bogið við þessa rökleiðslu, því er afsönnun alltént
röklega möguleg þótt hún kunni að vera illmöguleg í reynd. Sannprófun
og afsönnun eru röklega ósamhverfar (e. assymetric), sú fyrrnefnda er rök-
lega útilokuð, sú síðarnefnda röklega möguleg. Þetta þýðir þó ekki að við
getum afsannað tilgátur með öruggri vissu, tilgátur um að tilteknar kenn-
ingar séu ósannar eru fallvaltar eins og aðrar tilgátur. Samt borgar það sig
fyrir vísindamenn (og aðra) að setja fram tilgátur sem eru afsannanleg-
ar. Vísindamenn ættu (ef þeir gera það ekki nú þegar) að smíða djarfar,
víðfeðmar, velprófanlegar tilgátur og hamast við að reyna að afsanna þær
(lélegir vísindamenn hlífa tilgátum sínum við afsönnunum). Við lærum
aðeins af mistökum okkar, við verðum að þora að taka áhættur í kennismíð
og sætta okkur við dóm reynslunnar, viðurkenna ósigur okkar ef kenningar
okkar dæmast afsannaðar.
29 Karl Popper, The Logic of Scientific Discovery, New York: Harper Torchbooks, 1959,
bls. 43.
30 Sama rit, bls. 105.
31 Sama rit, bls. 41.
STEFÁN SNÆVARR