Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Page 218
218
uðu lofti enda voru allir gluggar lokað. Þá opnaði ég gluggana en allt kom
fyrir ekki, ólyktin hvarf ekki. Næst velti ég því fyrir mér hvort gamlar
matarleifar væru í eldhúsinu en svo var ekki. Svo bárust böndin að tusku
nokkurri og var henni hent. Við það hvarf fýlan, ég hafði beitt útilokunar-
aðferð og með henni nálgast sannleikann (athugið að ég hef ekki sannað
að tuskan hafi valdið ólyktinni, kannski hvarf orsakavaldur fýlunnar um
leið og tuskunni var hent). Þannig þokast vísindamenn nær sannleikanum,
að sögn Poppers. Því fleiri tilgátur sem við prófum og afsönnum, því nær
hljótum við að þokast sannleikanum. Þó megum við ekki halda að við
getum höndlað hann því þótt svo ólíklega vildi til þá gætum við ekki sann-
að að við hefðum sannleikann í höndunum.35
Þessi kenning á sér fornar rætur eins og ýmislegt annað sem Popper
segir. Heimspekingurinn Charles Sanders Peirce boðaði svipaða kenningu
löngu fyrir daga Poppers en Peirce bjó til hugtakið um fallveltishyggju
(e. fallibilism).36 Vísindakenningar eru fallvaltar, sagði Peirce rétt eins og
Popper löngu síðar. Peirce taldi líka að hrein skynreynsla, ómenguð af
kenningum, væri ekki möguleg. Þar af leiðandi gæti skynreynslan ekki
verið grundvöllur þekkingarinnar. Hann sagði að öll þekking byggði á
ályktunum frá vissum forsendum, forsendulaus reynsla sé ekki til. Ekki sé
hægt að öðlast nýja þekkingu nema með því að setja fram tilgátur, sam-
anber áherslu Poppers á tilgátusmíð.37 Það fylgir sögunni að Popper mun
ekki hafa kynnst verkum Peirce fyrr en um 1952, snillingarnir hugsa einatt
líkt.38
35 Til dæmis Karl Popper, Objective Knowledge, bls. 52–60.
36 Charles S. Peirce, „Some Consequences of the Four Incapacities“, Selected Writings,
New York: Dover Publications, 1958[1868], bls. 39–72.
37 Til dæmis Charles S. Peirce, „Questions Concerning Certain Faculties Claimed for
Man“, Selected Writings, New York: Dover Publications, 1958 [1868], bls. 15–38.
38 Samkvæmt Eugene Freeman og Henryk Skolimowski, „The Search for Objectivity
in Peirce and Popper“, The Philosophy of Karl Popper, 1. bindi, ritstj. P. A. Schilpp,
La Salle, Il: Open Court, 1974, bls. 509. Á efri árum gætti beinna áhrifa frá Peirce
á hugsun Poppers. Til dæmis tók hann undir margt af því sem Peirce segir um
brigðhyggju (e. indeterminism). Peirce andæfði því kröftuglega að heimurinn væri
eins og klukka, rígbundinn á klafa strangra, vélrænna lögmála. Popper efldi þessa
skoðun rökum og varði í leiðinni hugmyndina um frjálsan vilja. Hann líkir þeim
hluta heimsins sem ekki lúti ströngum lögmálum við ský. Hann klykkir svo út
með því að segja að klukkuhlið heimsins, vélræna hliðin, hafi í sér þátt af skýjum.
Karl Popper, Objective Knowledge, bls. 206–255. Karl Popper, Ský og klukkur, bls.
119–175.
STEFÁN SNÆVARR