Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Qupperneq 220
220
Hugtökin eru ómeðvitaðar kenningar, þegar við skynjum eitthvað þá
er sem við setjum fram tilgátu sem reynslan annaðhvort staðfestir eða
hrekur. Það þýðir að við beitum í reynd tilgátu- og afleiðsluaðferð þegar
við skynjum fyrirbæri þótt við vitum ekki af því. Öll kvikindi frá amöb-
unni til Einsteins beita reyndar happa- og glappaaðferð, satt best að segja
er tilgátu- og aðleiðsuaðferðin fáguð útgáfa af þessari aðferð. Fáguðustu
útgáfuna af henni finnum við í raunvísindum.
Við lærum bara af mistökum okkar, enda hafði skáldið Oscar Wilde lög
að mæla er hann sagði: „Experience is the name everyone gives to their
mistakes.“42 Í ljósi þess er engin furða þótt Popper hafni þeirri hugmynd
reynsluspekinnar að afurð reynslunnar sé safn skynreynda. Reynsluhugtakið
beri fremur að skilja daglegum skilningi, svipað þeim skilningi sem finna
megi í orðum á borð við „lífsreynslu“ eða orðasambandinu „reyndur mað-
ur“.43 Hefði Popper skrifað á íslensku hefði hann kannski bent á orð-
sifjatengsl nafnorðsins „reynsla“ og sagnarinnar „að reyna“. Reynsla er
fólgin í því að reyna að leysa vandamál, læra af mistökum, prófa sig áfram
og svo framvegis. Skynjunin er ekki aðalþáttur reynslunnar44 og jafnvel
þótt svo væri hjálpar það ekki skynreynsluhyggjunni. Minnumst þess nú
að kenningar eru fallvaltar og skynreynslan fræðaskotin, það er að segja
gegndrepa af meira eða minna ómeðvituðum kenningum. Af því leiðir að
skynreynslan er líka fallvölt, fræðaþátturinn í henni gerir hana fallvalta.
Þess utan veit hvert mannsbarn að reynslan er brigðul, okkur sýnist fjöllin
blá úr fjarlægð og árin brotin í vatni.
Þegar öllu er til skila haldið má sjá að öll þekking er fallvölt, líka reynslu-
þekkingin. Við getum hvorki sannað eitt né neitt með öruggri vissu, nema
kannski sjálfsögð sannindi. Að svo miklu leyti sem hægt er að staðfesta
kenningar þá megi telja kenningu staðfesta (e. corroborated) hafi hún geng-
ið í gegnum margar eldskírnir afsönnunartilrauna og lifað af. Því harðari
sem tilraunirnar til að hrekja hana eru, því betur sé kenningin staðfest. Það
gerir hana þó ekki sennilegri því falli hún á næsta afsönnunarprófi þá er
hún einfaldlega ósönn.45
42 Karl Popper, The Open Society and its Enemies, 2. bindi, bls. 388. Þessi orð voru lögð
í munn persónu í leikriti Wildes The Importance of Being Earnest.
43 Þessi hugmynd Poppers gæti verið innblásin af bandarísku athafnaspekingunum (e.
pragmatists), ekki síst: John Dewey, Art as Experience, New York: Perigree Books,
1934. Alla vega er þessi kenning um reynsluna hárrétt og mikil framför miðað við
skynreynsluhyggjuna.
44 Karl Popper, The Open Society and its Enemies, 2. bindi, bls. 388–389 og víðar.
45 Karl Popper, Logic of Scientific Discovery, bls. 265–269.
STEFÁN SNÆVARR