Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Blaðsíða 221
221
Í ljósi þessa talar Popper um aðgreiningarmælikvarða (e. criterion of
demarcation) milli vísinda og óvísinda. Vísindaleg sé sú kenning sem er
afsannanleg, óvísindaleg sú sem ekki er afsannanleg. Popper var lítt hrifinn
af skilgreiningarmennsku og taldi þetta ekki skilgreiningu á hugtakinu um
vísindi, heldur tillögu sem vonandi væri frjó og gæti skerpt skilning okkar
á vísindum og þar með bætt þau. Athugið að þetta er öðrum þræði for-
skrift fyrir góð vísindi en forskrift er ekki skilgreining.46
Ennfremur segir Popper að til þess að skilja vísindin verði að leggja
megináherslu á rökgerð þeirra, mælikvarðann á góðar og vondar kenn-
ingar. Minna skiptir að þekkja kringumstæður uppgötvana (e. context of
discovery). Menn geta fengið góða hugmynd fái þeir múrstein í hausinn en
múrsteinninn getur ekki metið hvort hugmyndin er efni í afsannanlega
tilgátu, hvort slík tilgáta verði afsönnuð eða staðfest af reynslunni, og svo
framvegis. Uppruni kenningar skipti engu, vísindagildið öllu.47
Þetta gengur mörgum illa að skilja, þeir rembast við að sýna fram á
að góðar kenningar hljóti að eiga sér rætur í reynslunni, rökvísinni, inn-
sæinu og svo framvegis. Sumir ganga jafnvel svo langt að telja mikilvægt
að finna uppsprettulindir vanþekkingar. Þeir svæsnustu halda að sannleik-
urinn sé augljós og því hljóti að vera einhver skýring á því hve fáfróðir
menn almennt séu. Ill öfl geri menn vísvitandi fáfróða, að fáfræðin eigi sér
einatt rætur í samsæri þessara afla gegn hinu góða. Þeir sem þannig hugsa
séu oft hjáfræðingar, menn sem trúi á gervivísindi.48
Gagnstætt vísindakenningum séu gervivísindakenningar ekki hrekjan-
legar. Til að gera illt verra hafi fylgjendur þeirra þá leiðu áráttu að bjarga
kenningum sínum frá afsönnun með aðstoð óprófanlegra bráðabirgða-
kenninga (e. ad hoc theories ). Bráðabirgðakenningar séu af hinu illa, ekki
megi reyna að bjarga kenningu frá afsönnun með hjálparkenningum (e.
auxiliary hypotheses) nema þær auki afsönnunargildi kennikerfisins sem um
ræðir.49
Popper tók stjörnuspáfræði, marxisma og sálgreiningu sem dæmi um
gervivísindi. Marxisminn hefði vissulega verið alvöruvísindi á upphafs-
skeiði sínu en helstu kenningar hans hefðu verið hraktar eða runnið inn í
46 Samt má velta því fyrir sér hvort hér sé ekki á ferðinni laumuskilgreining á hug-
takinu um vísindi.
47 Sama rit, bls. 34–39.
48 Karl Popper, Conjectures and Refutations, hér bls. 6–16. Karl Popper, Ský og
klukkur, bls. 35–41.
49 Karl Popper, Logic of Scientific Discovery, bls. 81.
AÐFERÐ OG AFSÖNNUN