Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2011, Qupperneq 235
235
Franski heimspekingurinn Étienne Balibar fæddist árið 1942. Hann var nem-
andi Louis Althusser í École Normale Supérieure í París á 7. áratug seinustu
aldar og kennir nú við Háskólann í París X. – Nanterre og Háskólann í
Kaliforníu – Irvine.
Rannsóknir Balibars eru meðal annars á sviði stjórnmálaheimspeki, eink-
um marxískri, heimspekilegri mannfræði og siðfræði og hann hefur sent frá sér
fjölda greina og rita um þau efni. Þar má fyrst nefna bókina Lire le Capital (e.
Reading Capital) sem hann gaf út ásamt Louis Althusser, Jacques Rancière og
fleirum árið 1965. Meðal annarra verka hans eru: Spinoza et la politique (1985),
Race, nation, classe. Les identités ambiguës (1988), La crainte des masses: Politique
et philosophie avant et après Marx (1997), La philosophie de Marx (2001), Nous,
citoyens d’Europe? Les frontières, l’État, le peuple (2001), Europe, Constitution,
Frontière (2005) og La proposition de l’égaliberté (2010).
Sjálfsmynd og einstaklingseðli hafa verið honum hugleikin í gegnum tíðina
og fléttast við önnur umfjöllunarefni hans, svo sem stéttabaráttu og landa-
mærahugtakið. Í ritinu Race, Nation, Classe fjallaði hann, ásamt bandaríska
sagn- og félagsfræðingnum Immanuel Wallerstein, um birtingarmyndir ras-
ismans í nútímanum og tengsl hans við kapítalisma, stéttaskiptingu og þjóð-
ernishyggju. Hann hefur beint sjónum sínum að evrópskum rasisma, ofbeldi,
stjórnmálum, sjálfsmynd, landamærahugtakinu og því hvort evrópskt ríkisfang
sé mögulegt eða æskilegt. Hann skoðar Evrópu sem landamærasvæði (e. bor
derland) í ritum og greinum, bendir á mikilvægi jaðarsvæðanna og veltir því
fyrir sér hver miðpunktur Evrópu sé; hvort til sé eitthvað sem heitir „evr-
ópsk þjóð“ og hvað sé handan teknókratísku birtingarmyndarinnar. Í hans
augum er Evrópa ekki markmið heldur tæki til að koma til leiðar breytingum
á alþjóðavæðingunni.
Greinin sem hér birtist í íslenskri þýðingu var samin í maí 2010 og gefin
út í tímaritinu Theory & Event 13:2, 2010. Hér fjallar Balibar um framtíð
Evrópusambandsins í fjármálakreppunni og veltir því fyrir sér hvort þetta séu
endalok sambandsins eða tækifæri til að endurskoða það og endurmóta.
Ásdís R. Magnúsdóttir
Étienne Balibar
Evrópa: Seinasta kreppan?
Nokkrar tilgátur
Ritið 3/2011, bls. 235–241