Glóðafeykir - 01.11.1974, Blaðsíða 31
GLÓÐAFEYKIR
31
Og nú er víst mál að þessu rausi um sjálfan mig ljúki, enda getur
það naumast verið neinn skemmtilestur. En e. t. v. sanfærir þessi
upptalning einhvern um það, að ég hef ekki þurft að láta mér leið-
ast um dagana vegna þess, að ég hafi ekki haft nóg að sýsla. Þetta
hafa náttúrlega ekki verið nein hátekjustörf, en þau hafa gefið það
af sér, sem ég hef þurft mér til lífsframfæris, og þá er það nóg.
— Jæja Friðbjörn. Mig langar nú til þess, áður en við fellum þetta
spjall okkar, að víkja aftur ofurlítið að Hólum, þessum sögufræga
stað, sem heita má að verið hafi heimili þitt og a. m. k. starfsvett-
vangur að verulegu leyti í hartnær 70 ár. Allir vita að Hólar voru og
eru með nokkrum hætti enn þá menningarmiðstöð þessa héraðs. En
voru þeir það ekki einnig í félagslegum skilningi, auk þess að vera
annar aðal samkomustaðurinn?
— Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Skólinn var auðvitað
menningarmiðstöð eins og þú segir, enda lengst af lotið stjórn úr-
valsmanna og þá má einnig geta um bændanámskeiðin, sem þar fóru
fram árum saman. Þau stóðu þetta frá fjórum dögurn og upp í viku.
Þangað komu menn víðsvegar að úr héraðinu og jafnvel einnig
stundum utanhéraðsmenn til þess að hlýða þar á fræðandi fyrir-
lestra og taka þátt í uppbyggilegum umræðum. Og þá var stundum
mikið ort, enda oft saman komnir þarna margir snjallir hagyrðing-
ar. Hefði verið gaman að halda þeim vísum til haga og e.t.v. er eitt-
hvað til af þeim í gömlum fundargerðum frá námskeiðunum.
Bændanámskeiðin voru í raun og veru stórmerk starfsemi á sinni
tíð og mun margur eldri maðurinn, sem í þeim tók þátt, geta yljað
sér við minningarnar frá þeim.
Nú, hvað samkomur áhræðri, þá má sjálfsagt segja að Sæluvikan
hafi verið aðal skemmtun ársins. En þorrablótin á Hólum voru líka
víðfræg og ég vil segja góðfræg, þótt þau stæðu ekki nema eina nótt
á vetri, ef gestir urðu þá ekki hríðtepptir, sem fyrir kom. Þorra-
blótin sótti fólk víðsvegar að úr öllu héraðinu, ríðandi eða gangandi,
eftir því sem á stóð. Hestar samkomugesta voru stundum svo margir
að þeir rúmuðust ekki í heimahúsum og varð þá að fara með þá fram
á Hagakot. Og fólk vílaði ekki fyrir sér að koma gangandi, karlar
og konur, þótt í misjöfnu færi væri, lengst framan úr Skagafirði,
handan af Krók, utan úr Fljótum, jafnvel úr Siglufirði og norðan úr
Svarfaðardal, dansa síðan alla nóttina og labba svo heim að morgni.
Það mætti segja mér að þetta vefðist fyrir ýmsum nr'i til dags. Og
þó að manni fyndist nú að hversdagslega væru öll hús full á Hólum,
bæði af mönnum og skepnum, þá fann enginn fyrir þrengslum á