Glóðafeykir - 01.11.1974, Blaðsíða 35
GLÓÐAFEYKIR
35
stafar þá annað hvort af félagslegri deyfð og áhugaleysi eða sá hópur
manna, sem eru sýndarmenn einir, þótt telji sig góða og gilda sam-
vinnumenn, sýkir út frá sér og mengar andrúmsloftið.
Hér hefur verið sagt nokkuð til syndanna. Þó er margt vansagt
en ekkert ofsagt, og hvergi hvikað frá því, sem satt er og rétt. Verð-
ur um það að fara sem vill, hvort mönnum líkar betur eða verr.
Áður fyrr var haldið uppi mikilli samvinnufræðslu af litlum efn-
um. Á síðari árum hefur sú fræðsla verið mjög í molum og raunar
lítils virði. Eru þó ástæður aðrar og betri en áður. En nú er að skip-
ast veður í lofti, að því er ætla má. Nokkur félög hafa þegar hrundið
af stokkum nokkurri fræðslustarfsemi, önnur undirbúa málið. A
aðalfundi S.Í.S. 1973 var svo kveðið á, að fræðslumál samvinnufélag-
anna, umræður og ályktanir, skyldi verða höfuðmál aðalfundar 1974.
Það er eigi vonum fyrr. Samvinnumálin eru svo ríkur þáttur í lífi
hvers manns að kalla úti um byggðir landsins, hvort sem sjálfur
hyggur að og gerir sér ljóst eður eigi, jafnvel hvort heldur hann er
samvinnumaður eður eigi, bæði félagslegur og hagsmunalegur
þáttur, að einsætt má telja, að haldið sé uppi víðtækri, skipulegri
samvinnufræðslu um land allt, svo margslungin sem samvinnumálin
eru. Ella kann svo að fara, að félagsmenn gleymi hugsjón samvinnu-
stefnunnar, hætti að hugleiða yfirburði samvinnurekstrar og horfi
lítt um fætur fram.
G. M.
Þessi grein var skrifuð áður en aðalfundur S.Í.S. 1974 var haldinn
(6.-7. júní), en þar mun hafa verið fullráðið að taka fræðslumálin
nýjum tökum.
G. M.