Skírnir - 01.01.1953, Síða 11
Skímir
Árni Pálsson
7
fyrir léttlyndi, svall og bílífi. Þangað sóttu Norður-Skandínav-
ar til að lyfta sér upp, Svíar kölluðu borgina „det glada
Köpenhamn“. Listamenn, rithöfundar, blaðamenn, stúdentar
og fjöllyndar konur sóttu sömu staði og kynntust. Bernína
var til dæmis eitt af þeim kaffihúsum, þar sem öllu ægði
saman, sem girnilegast var til fróðleiks í stórborginni, þar
sem ungir gáfumenn sóuðu sínum tíma, Árni Pálsson, Jóhann
Sigurjónsson, Jón Stefánsson. Oft var vakað fram úr og endað
á morgunkjallara. Eitt sinn sat Árni Pálsson heila nótt að
drykkju með Knut Hamsun og fleirum. Slík ævintýri voru
freistandi. Hitt var vafasamara, að daginn eftir yrði lesið eða
farið í tíma.
Þetta hefði allt horft öðruvísi við, ef Árni Pálsson hefði
verið sonur auðugs manns og auðugrar þjóðar, fremur við
nám til að menntast en að ná prófi. En hann var íslend-
ingur, eins og aðrir kostaður til náms í von um sem stytzta
útivist og skjótastan frama. Garðstyrk er löngu lokið, hjálpin
að heiman hrekkur ekki til, þarfirnar hafa sízt farið minnk-
andi, fjárhagur hans verður mjög örðugur, ár eftir ár, og
tvísýnt, hvað fram undan sé. Eftir níu Hafnarár yrkir hann
sitt fegursta ljóð, um æsku, sem er á förum:
SIGLING
Sólin skein á seglin þönd.
— Sigrinum fáir hrósa. —
Dró ég knörr af dimmri strönd,
í draumi sá ég undralönd.
— í djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.
Suðar aldan sölt og köld.
— Sigrinum fáir hrósa. —•
Sá ég bjartan sólarskjöld
síga bak við þokutjöld.
— I djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.
Sigli ég áfram, sigli ég enn.
— Sigrinum fáir hrósa. —
Til eru höppin tvenn og þrenn,
taka mun ég lending senn.
— 1 djúpinu glitrar gullið rauða og ljósa.