Skírnir - 01.01.1953, Side 19
Skirnir
Árni Pálsson
15
sem næst. Þess er ekki kostur að velja dæmi, nema það gangi
út yfir sjálfan mig. Eins og allir góðir vinir rifumst við oft,
þegar á milli bar í skoðunum — óðum um gólfið og sendum
hvor öðrum tóninn. Eitt sinn hafði eg skrifað um hann í
blað mitt, Vör'S, að hann væri mælskasti maður landsins, en
skömmu síðar lenti okkur saman. Yið rifumst eins og hundur
og köttur, og loks stanzar hann fyrir framan mig og segir
með sínum ógurlegasta þykkjuþunga: „Þú ert svo vitlaus, að
eg á engin orð yfir það — alls engin!“ Um leið og hann
sleppir orðinu, gægist bros fram í augnakrókum og munn-
vikum, hann bætir við: „Og þó er eg sagður málsnjallasti
maður á öllu Islandi.“
Hann átti gáfuna til að einkenna mann í einni setningu,
svo að ekki gleymdist. Margir kannast við orð hans um Jón
Þorláksson, einn þeirra stjórnmálamanna, sem hann virti og
treysti mest, en fannst meiri vitmaður á verkleg mál og
fjármál en á mannleg efni: „Hann hefur allra lifandi manna
mest vit á öllum dauðum hlutum.“ Þessi orð eru fyrst og
fremst stórt lof, en undirstrika um leið skarplega takmörkun
mikils gáfumanns.
Hann gat sagt setningu, sem líkt og sagði allt um einn
megindrátt í fari stjómmálamanns, brá sterkara ljósi en löng
lýsing á ein höfuðrök að gengi hans og völdum. Eitt sinn
kvartaði hann yfir því að þurfa hvað eftir annað að fara
í löng og erfið framboðs-fundarhöld í kjördæmi, sem engin
von var til að vinna. „Hvers vegna ferðu þá fram?“ spurði
eg. Hann svaraði: „Það er hægara um að tala en í að komast,
að eiga að sitja augliti til auglits við hann Ólaf Thors og
segja nei við því, sem hann biður mann um.“
Okkur finnst sjaldan menn skemmtilegir til lengdar, nema
við virðum innræti þeirra og manngildi, eins og það kemur
fram í daglegu lífi. Yið þreytumst fljótt á mönnum, sem eru
ekkert nema skemmtilegir. Árni Pálsson var óvenjulegur
mannkostamaður, góðhjartaður, óeigingjarn, fórnfús, í senn
höfðinglyndur og auðmjúkur í skapi. Hann var manna laus-
astur við þá lesti, sem oft fylgja metnaði eða stóru nafni,
hégómaskap, lofsýki, ofurviðkvæmni fyrir eigin dýrð, dýrkun