Skírnir - 01.01.1953, Síða 21
Skímir
Árni Pálsson
17
kosti veröld, sem hægt er að elska. Líf og menning þarfnast
manna, sem eru gerólíkir Stakanov, sumir kannske bein
andstæða hans. Árni Pálsson átti sitt megingildi í því, hver
hann var. Þó hefði hann að ósekju mátt vinna meira en
hann gerði, eða svo kann að virðast. En samtíð hans hefði
farið mikils á mis, ef hann hefði ekkert gert nema vinna.
Hann átti, á götum og í samkvæmum Reykjavíkur, eitthvað
af mætti úthafsöldunnar til að „bregða stónun svip yfir
dálítið hverfi“, eins og skáldið kemst að orði — eitthvað af
voldugleika höfuðskepnanna, og þá einna helzt óróa, hreidd,
reisn og þunga hinna miklu hafsjóa.
Árið 1936 bætti hann einu erindi við kvæðið um sjálfan
sig, eins konar svanasöng, löngu fyrir andlátið, en þó kannske
hinu síðasta, sem hann orti:
Seiðir moldin svört og köld.
— Sigrinum allir hrósa. —
Bak við hennar hlífiskjöld
hníga sá ég öld af öld.
— 1 moldinni glitrar gullið rauða og ljósa.
Meðan samtíðarmenn Áma Pálssonar eru ofan moldar,
mun hann sjálfur lifa, í miðri Reykjavík, mynd hans ekki
fyrnast, orð hans ekki gleymast.
Og hans eina bók verður lesin af óbornum, og hún mun
standa, eitt snjallasta rit í bókmenntaarfi fyrri hluta tuttug-
ustu aldar.
Og fram á tímanna kvöld, löngu eftir að flest samtíðarljóð
eru gleymd, kannske eins lengi og tungan er töluð, munu
stúdentar syngja hans fræga, fagra söng:
Hin gömlu kynni gleymast ei,
enn glóir vín á skál!
Hin gömlu kynni gleymast ei
né gömul tryggðamál.
Ö, góða gengna tíð
með gull í mund!
Nú fyllum, bróðir, bikarinn
og blessum liðna stund.
2