Skírnir - 01.01.1953, Qupperneq 24
20
Steingrímur J. Þorsteinsson
Skímir
bókmenntafræðinguxn. Watson Kirbconnell, núverandi rektor
Acadia-háskólans í Nova Scotia, kallar Stephan höfuðskáld
Kanada,1 Sigurður Nordal mesta skáld í öllum nýlendum
Breta2 — og Frank Stanton Cawley, látinn prófessor við
Harvard-háskólann í Bandaríkjunum, mesta ljóðskáld, sem
uppi hafi verið í Yesturheimi, og hið eina þar í álfu, er sæti
skipi meðal fremstu skálda heims.3 Vitaskuld orkar slíkt
mat alltaf tvímælis, jafnvel frá dómbærustu mönnum. En
það eitt er þó ævintýralegt, að þjóð, sem er að mannfjölda
álíka og íbúatala við eina götu í stórborg, hafi alið son, sem
komið geti til álita sem eitt öndvegisskáld meðal mikilhæfra
og menntaðra tugmilljónaþjóða, enda þótt allar heilladísir
hefðu honum hossað. En að slepptum öllum samanburði á
sviði heimsbókmennta eru verk Stephans í sjálfum sér —
án nokkurs tillits til kjara hans — andlegt stórvirki, og þegar
miðað er við aðstæðurnar, eru afrek hans stórmerki. Við
spyrjum: Hvernig mátti þetta verða? Dæmi Stephans hlýtur
að auka trú okkar á mátt manneðlisins, á þroskamöguleika
lífsins og á þann menningararf, sem hann hafði að heiman.
Vitanlega skipta hér mestu máli stórfelldar gáfur Stephans
og svo sú menntunarþrá hans og skapfesta, sem gerðu honum
alla vegi að þrosba- og gæfuleiðum. Vænlegasta ráðið til að
kynnast þessu er að leita til bréfa hans, og verður hér til
þeirra vitnað eins og framast verða föng á. Það eru ein allra
merkustu bréf, sem til eru eftir fslending, og einhver sann-
asta og fyllsta heimild, sem til er á íslenzku um mikinn
mann. — Þau munu flest skrifuð í flýti, en eru þó víðast
hvar gjörhugsuð og gagnvönduð. Þau hafa aldrei verið ætluð
til birtingar, en sýna þó brotalausa mynd, sem alltaf er söm
við sig í allri auðlegð sinni, sama hreinskilni og einurð i
sjálfs sín garð sem annarra, sama heiðríkja hugsunar, sama
sálarþrek. Þar kemur fram heilhuga maður, og sá hugur er
1) University of Toronto Quarterly V, 1936, 263—277.
2) íslenzk lestrarbók 1400—1900, Rvik 1924, 283.
3) Tímarit Þjóðræknisfélags Vestur-íslendinga XIX, 1937, 120—126;
Scandinavian Studies and Notes XV, 1938, 99—109; sbr. Sigurð Nordal,
Lesbók Mgbl. 9. júlí 1939.