Skírnir - 01.01.1953, Page 56
52
Þóroddur Guðmundsson
Skírnir
mikil ítök í hugum manna. Tel eg mig hafa nægar sannanir
fyrir því, að fátt mun hafa snortið Stephan dýpra á ferð
hans um landið þetta sumar en móttökur Mývetninga á
Námaskarði. Þær urðu tilefni þess, að hann skrifaði ritgerð-
ina Jökulgöngur, hið mesta snilldarverk, er setja má á bekk
með hans beztu kvæðum.
Stephan hefur orðið mér eftirminnilegastur allra gesta,
sem komu á æskuheimili mitt, og dvaldist hann þar þó aðeins
dagpart. Eg man ekki til, að faðir minn væri glaðari við
komu nokkurs manns en Stephans, og höfðu þeir þó aldrei
sézt áður. Mér hefur jafnan síðan fundizt, að mætavel ætti
við Stephan sjálfan það, sem hann kvað um Helga Stefánsson,
bróður Þorgils gjallanda:
Engan hóf á efstu skör
yfirborðið glæsta.
Varpar tign á kotungskjör
konungslundin stærsta.
Það var engin yfirborðsglæsimennska í fari Stephans, þar
sem hann sat í gömlu baðstofunni á Sandi og blandaði geði
við húsbóndann. En Andvökuskáldið minnti mig helzt á
Ingjald í Hergilsey, eins og honum er lýst í Gísla sögu, þegar
Börkur digri kemur til hans með liðsafla og biður hann að
selja fram Gísla, bróðurbana sinn, hótar ella lífláti. En
Ingjaldur svarar: „Ek hefi vánd klæði, ok hryggir mik ekki,
þó at ek slíta þeim eigi gerr; ok fyrr mun ek láta lífit en
ek gera eigi Gísla þat gott, sem ek má, ok firra hann vandræð-
um.“ Mér fannst Stephan hafa „vánd klæði“ líkt og Ingjald-
ur og varð starsýnt á skyrtuna hans, móbrúna eins og mold.
En var ekki hjartað í barmi beggja gætt svipuðum kostum:
gamla breiðfirzka bóndans, er mat minna sitt eigið líf en líf
skjólstæðings síns, og vestur-íslenzka landnemans, sem orti
„Vetrarríki“? 1 því kvæði segir m. a. svo:
Eg veit það er indælt við sjávarins sanda,
þá sólarlags gullþiljum ládeyðan felst.
En þar kysi eg landnám, sem langflestir stranda,
ef liðsinnt eg gæti — eg byggði þar helzt.