Skírnir - 01.01.1953, Side 69
Skímir
Stephan G. Stephansson
65
ágirndarseggi, með þeim einu vopnum, sem hann vill beita
og á ráð á: orði sínu og ljóði. Að vísu fer það til einskis eins
og dropi í hafið. En hann friðar samvizku sína með því og
segir við England:
Þú átt helga heimting á
um höfuðglæp þinn nið að fá,
því að með sverðinu geta Bretar aldrei unnið hug og hjarta
annarra þjóða ríki sínu til blessunar:
Ef þvílíkt veldi vexti nær,
á vizku og bróðurhug það grær.
Á heimsstyrjaldarárunum 1914—1918 og eftir þau orti
Stephan „Yígslóða“, sem er svæsnasta ádeila hans á styrjaldir.
I „Transvaal“ tjáði hann sig albúinn að taka þátt í vörnum
Bretaveldis með vopnum, ef þörf gerðist. En þegar heims-
styrjöldin fyrri var háð, sakfelldi hann eigi aðeins alla styrj-
aldarleiðtoga og stríðsæsingamenn, heldur og óbreytta dáta,
ekki sízt sjálfboðaliðana, sína eigin landa, því að
stærstan huga þurfti þá
að þora að sitja hjá.
Aflaði hann sér með því óvinsælda margra þeirra, mun jafn-
vel ekki fjarri því, að hann væri af sumum talinn landráða-
maður.
Ekkert slíkt vakti þó fyrir Stephani. 1 aðalkvæði „Vígslóða“,
„Vopnahléi", lætur skáldið tvo öreigahermenn andstæðra sveita
talast við um orsakir, ógnir og afleiðingar stríðsins, á meðan
fárra tíma vopnahlé verður. Þeim kemur vel ásamt, enda
eiga þeir ekkert sökótt hvor við annan fremur en faðir og
sonur, sem góð frændsemi er með. Yngri maðurinn virðist
vera Breti, hinn eldri Þjóðverji. Hann segir m. a.:
Sigur! vinur, mér er sama um sigra!
Sigur rikja er fall á næstu grösmn.
Sigruð þjóð, sem lofað er að lifa,
lifir til að hefna, því að valdið
fellur æ á sínum eigin sigrum
samt að lokum. Þeir eru hefndargjafir.
5