Skírnir - 01.01.1953, Síða 70
66
Þóroddur Guðmundsson
Skírnir
Mundi ekki jafnvel þeim andstæðingum Stephans, sem vildu
láta þýða „Transvaal“ og „Vígslóða“ á ensku til þess að koma
honum á kné — og lifðu ógnir síðustu styrjaldar, hafa þótt
þetta spámannlega mælt?
Líkt og ýmsir vestra voru Stephani reiðir fyrir stríðskvæði
hans, aflaði hann sér óvinsælda með ljóðaflokknum „Á ferð
og flugi“. Töldu margir hann árás á prestana. Svo var þó
eigi, heldur lýsir Stephan í ferðasöguformi sléttunni og lífi
landnemanna af mikilli snilld. Inn í þá lýsingu fléttar skáldið
átakanlega sögu af vestur-íslenzkri stúlku, sem hann nefnir
Ragnheiði. Hún er góð stúlka og falleg, ber í brjósti einlæga
tryggð til foreldra sinna og heimilis, en verður að fara í vist
til vandalausra á barnsaldri vegna fátæktar föður hennar.
Slitin frá þjóðerni sínu fer hún á mis við allt uppeldi, nær
þó fermingu að nafninu til, en lendir út á hálan ís freist-
inganna. Allir fordæma hana. Loks lætur hún líf sitt við að
bjarga barni annarrar konu frá bana í járnbrautarslysi.
Þrátt fyrir misheppnað líf tekst Ragnheiði að varðveita kjarna
manngildis síns óspilltan. Hún deyr sem hetja. Þetta verður
skáldinu ímynd og sönnun þess ágætis, er með flestum býr,
fái það einungis tækifæri til að njóta sín:
Eg gat um, að helgaði oft hálfglatað líf
ein hugrenning göfug og djörf,
að við gætum aldrei um eðli manns dæmt,
en aðeins um játning og störf,
að eg væri fulltrúa, að fyndist þó loks
í framtíðar ómælishyl
það gull, sem að óþekkt í aurunum lá
og atvikin grófu ekki til.
Hvergi birtist þó trú Stephans á hið bezta í manninum og
á framtíð hans fagurlegar en í kvæðinu „Bræðrabýti“. Fjallar
það um tvo bræður. Leiðir þeirra skildi. Annar fór að leita
gulls, en varð úti í Féþúfugili. Seinna vísaði beinagrind hans
mönnum leið til námunnar. En gullið reyndist þeim hefndar-
gjöf. Þeir fengu fyrir það glys eitt og sultarbrauð, urðu
ófarsælir eins og sá, sem vísaði þeim á það. Hinn bróðirinn
lagði stund á að græða þau sár landsins, er skammsýnar