Skírnir - 01.01.1953, Síða 73
Skímir
Stephan G. Stephansson
69
Fyrir aldamótín komst Stephan að orði á þessa leið:
Mig eg kæri minnst um, hvað
mér og nútíð semur.
Eiga vildi eg orðastað
í öldinni, sem kemur.
Það er engu líkara en skáldið hafi hitt á óskastund, þegar
hann ortí þessa vísu. Enn berst rödd hans, látlaus, hlý, en
alvöruþrungin, til vor, þótt hann sé látinn fyrir meira en
aldarfjórðungi. Svo bráðlifandi, sígild og tímabær eru mörg
beztu ljóð hans, að það er eins og þau séu fyrir oss ort ein-
mitt nú á örlagastundu. Mér finnst sem viðvörunar- og hvatn-
ingarorð Stephans séu til vor töluð í dag. Hann eggjar lög-
eggjan hvern sannan íslending að vernda og vinna fyrir allt,
sem honum er dýrmætast. Svo segir skáldið (í ávarpi til
Guðmundar Finnbogasonar) -— og hver vill ekki taka undir
þá játningu, að minnsta kosti með vörunum?
Þá eignin manna öll er reidd til þings
og erfðaminning skiptir sanngjarn dauðinn,
v_ér kysum sögusæti Þveræings
oss sjálfum fyrr en Möðruvallaauðinn.
Á fund Klettafjallaskáldsins er enn gott að koma. Hjá
honum er svo óspilltan lífsfögnuð að finna, logandi frelsis-
ást, réttlætiskennd og siðferðisþrek, sem aldrei lætur bugast.
Hvar eigum vér betra lyf gegn kveifarskap og kjarkleysi
eða öflugra vopn móti kúgun, ósannsögli og yfirdrepskap
en í ljóðum Stephans? Svo hugrakkur, vitur og snjall var
þessi sjálflærði, en hámenntaði bóndi, að vandfundið mun
vera það íslenzkt skáld, fyrr og síðar, er betri sé leiðtogi í
baráttunni við þá óvini, innri og ytri, sem að oss sækja nú
og allir góðir drengir verða að heyja til þrautar.