Skírnir - 01.01.1953, Side 99
Skírnir
Nokkrar athugasemdir uin íslenzk bæjanöfn
95
neitt um það, hvort bær þessi hafi síðar breytt um nafn og
nefnzt Litla-Tunga eða lagzt í auðn, en Litla-Tunga verið
byggð í staðinn.
Það er kunnugt, að nokkrir bæir bera „staða“-nafn, þar
sem bærinn er þó ekki kenndur við þann mann, sem fyrstur
bjó þar, venjulega víst landnámsmann. Dala-Kollur bjó ó
Höskuldsstöðum, Eyvindur Þorsteinsson bjó á Helgastöðum,
Hróaldur bjóla bjó á Torfastöðum í Vopnafirði, og Skeggja-
staðir tvennir í Múlaþingi eru taldir býli landnámsmanna
með öðrum nöfnum. Bærinn er þá stundum kenndur við son
landnámsmanns eða ef til vill fjarlægari niðja eða frænda.
En þetta sannar sýnilega ekkert um það, að bærinn hafi haft
annað nafn í öndverðu eða að „staða“-nafnið hafi komið á
bæ fyrst, eftir að hann var orðinn eyðibær. Eftir heimildinni,
landnámabókum, liggur langnæst að ætla nöfn þessi upphaf-
leg á bæjum þessum, sem hafa ekki í eyði komizt, svo að
kunnugt sé, nema sérstök rök liggi til annars.
Þá niðurstöðu próf. H. K., að „staða“-nöfnin séu upphaf-
lega til orðin sem nöfn á eyðibæjum, skal nú athuga nánara.
Það er ljóst, eins og að var vikið, að fáein tilvik, þar sem
víst eða líklegt kynni að vera, að slíkt nafn væri fyrst komið
á bæ, eftir að hann var kominn í eyði, eru alls ónóg til sönn-
unar því, að slíkt hafi alltaf eða almennt verið, svo ólíklegt
sem það líka virðist í sjálfu sér.
Próf. H. K. segir, að það hafi ekki verið siður landnáms-
manna að gefa bæjum nöfn, sem dregin eru af mannsnafni,
og að engin „sönn“ bæjanöfn af því tæi frá landnámsöld
séu eftir. Þessi ummæli gilda ekki aðeins um „staðabæina“,
heldur og alla þá mörgu landnámsbæi, sem bera nafn af
manni og um var rætt í 4. tölulið hér að framan. Yfir 40%
landnámsbæja draga nafn af manni, landnámsmanni eða öðr-
um manni, og sýnist þetta ekki benda til þess, að ekki hafi
verið siður landnámsmanna að gefa bæjum nöfn, sem dregin
væru af mannanöfnum, og að slík nöfn hafi ekki í öndverðu
verið „sönn“ bæjanöfn. Ekki er ljóst, hvers vegna próf. H. K.
heldur þessu fram, og hefði þó, þar sem mannanafnabæirnir
eru svo afar margir, verið full nauðsyn á nánari greinar-