Skírnir - 01.01.1953, Page 137
Skímir
Islenzk skjalasöfn
133
safn alþingisbóka auk nokkurra fleiri embættisbóka og ann-
arra skjalabóka, alls 20 bindi. Gagnkvæm afhending sam-
kvæmt þessum samningi fór fram 1928.
Að sjálfsögðu gekk allt, sem ísland hlaut í þessum skiptum,
beint til Þjóðskjalasafnsins, og var þetta merkisviðburður í
sögu þess. Meðal skjalanna, sem það fékk, eru ómetanleg gögn
um sögu íslands, einkum á 17. og 18. öld. Að vísu lét Þjóð-
skjalasafnið af hendi mikilsverðar skjalabækur, en sú er bót
í máli, að efni þeirra er eftir sem áður í safninu í uppköstum
og frumritum bréfa.
Um áramót 1950—51 var lokið flutningi Þjóðminjasafns
úr Safnahúsinu við Hverfisgötu í hið nýja hús, sem reist var
handa Þjóðminjasafni skv. ákvörðun Alþingis 1944. Þjóð-
minjasafnið hafði verið geymt á efsta lofti Safnahússins, og
skiptist það húsnæði, sem nú losnaði þar, milli Landsbóka-
safns og Þjóðskjalasafns. Sá húsnæðisauki, sem Þjóðskjala-
safnið fær, kemur í góðar þarfir. Svo þröngt er orðið í þeim
hluta hússins, sem fenginn var skjalasafninu 1909, að geyma
verður í kössum stórar sendingar frá embættismönnum. Þegar
hið nýja húsrými verður að fullu tekið í notkun, standa vonir
til, að hillurúm verði nægilegt handa öllu skjalasafninu, eins
og það er nú.
Forstöðumaður skjalasafnsins var eini starfsmaður þess til
1911. Þá var ráðinn aðstoðarskjalavörður við safnið skv. fjár-
veitingu á fjárlögum 1912—13. Nú eru við safnið þrír skjala-
verðir auk þjóðskjalavarðar, hann í fimmta, hinir skjalaverð-
irnir í sjöunda launaflokki. Sbr. lög um laun starfsmanna
ríkisins 12. marz 1945.
Með lögum um sameiningu yfirskjalavarðarembættisins og
landsbókavarðarembættisins 4. júní 1924 var svo fyrir mælt,
að þjóðskjalavarðarembættið skyldi sameinað landsbókavarðar-
embættinu, þegar annaðhvort eða bæði losnuðu og því yrði
við komið. Lög þessi hafa að vísu ekki verið numin úr gildi,
en þeim hefur alls ekki verið beitt, og mun mega telja þau
dauðan bókstaf.
Samkvæmt reglugjörðum 10. ágúst 1900 og 13. janúar
1916 voru skjöl allra embætta og stofnana, opinberra nefnda