Skírnir - 01.01.1953, Síða 163
Skirnir
Sendiferðir og hirðstjórn Hannesar Pálssonar
159
Athugasemdir og skýringar.
a) Með þessari klausu vitnar Hannes til laga og tilskipana
norsku stjórnarinnar, sem bönnuðu útlendingum að verzla við
skattlönd norsku krúnunnar. Norðmenn urðu mestu ráðandi
um siglingar til Islands þegar á 11. öld, eins og bezt sést af
samningi íslendinga við Ólaf helga. Þar segir, að Islendingum
sé heimilt að sigla frá Islandi, til hvaða lands, sem þeir vildu.15)
Af þessu ákvæði má ráða, að Norðmenn hafi þá þegar reynt
að einoka viðskiptin við Islendinga, og það hefur þeim tekizt
að mestu, þegar skipafloti landnámsaldar var orðinn ósjófær.
Af Ganda sáttmála sést, að Islendingar eru þá nær algjörlega
háðir Norðmönnum um aðflutninga til landsins, og á það
hefur verið bent, að konungur hafi ætlað sér að nota skipa-
ákvæði sáttmálans til þess að einoka verzlunina hér við land,
en það hefur ekki tekizt. I Höyersannál stendur við 1273:
„Magnús konungur játaði Islendingum að eiga í hafskipum.“
Þessi setning verður ekki skilin á annan hátt en þann, að ein-
hvern tíma hafi konungur neitað þeim um þennan rétt. Allt
um það eru Norðmenn nær einráðir í verzlunarmálum hér
fram á 15. öld, en aukin sókn annarra þjóða út á hafið ógnaði
skattlandsverzlun þeirra. Fyrir 1340 var Islandsverzlunin
frjáls norskum þegnum, en um þær mundir verða þær breyt-
ingar á útflutningi Islendinga, að héðan tekur að flytjast mikið
magn skreiðar í stað landbúnaðarafurða. Nú var Björgvin
aðalstöð skreiðarverzlunar norska ríkisins, og reyndi stjórnin
því brátt að einskorða íslandsverzlunina við Björgvin. I
febrúar 1348 gaf konungur út réttarbót og bannar þar öllum
kaupmönnum að verzla við skattlöndin án síns leyfis.16) Á
þann hátt hugðist hann auka tekjur sínar af skattlöndunum.
Árin 1349 og 1350 geisaði svartidauði í Noregi og felldi um
þriðjung þjóðarinnar. Mannfallið orsakaði mikla tekjurýrnun
hjá stjórninni, svo að konungur reyndi að endurskipuleggja
hana. Um þær mundir munu þeir feðgar, Magnús minni-
skjöldur og Hákon, sonur hans, hafa lagt sekkjagjöld á Islands-
för og krafizt fjórðungsrýmis í hinum tilskildu sex skipum,
sem hingað skyldu sigla samkvæmt sáttmálum. Einnig hefur
þá Islandsverzlunin verið lögð undir Björgvin og háð sérstök-