Skírnir - 01.01.1953, Side 222
218
Ritfregnir
Skírnir
Kemur þá meginkafli bókarinnar, þýðingar á Ijóðum nokkurra enskra
skálda fré og með Marlowe (1564—1593) til og með Hardy (1840—1928).
(Reyndar er ekki rétt, að þau séu öll ensk, sum, t. d. Burns og Walter
Scott, eru skozk). Flestar þessara þýðinga eru á kvæðum eftir Shake-
speare, Keats og Wordsworth, en auk þeirra eru i hókinni fagrar þýðingar
á Ijóðum eftir Shelley, Byron og Coleridge, svo að fleiri dæmi séu nefnd,
þó af handahófi. Er til allra þessara þýðinga vandað, enda mætavel
heppnaðar yfirleitt. Ætti ég að gera upp á milli hinna beztu þessara þýð-
inga, kæmist ég í vanda, enda koma þar ýmis sjónarmið til greina. Fagrar
þykja mér sonnettur Shakespeares og Wordsworths hér í sinum íslenzka
búningi. Og tilþrif mikil eru í þýðingu Helga á Skýinu eftir Shelley. Þó
held ég mér þyki einna vænst um Gríska skrautkeriS (Ode on a Grecian
Urn eftir Keats.
Á eftir ljóðum brezkra höfunda koma ljóð frá Rússlandi, úr latínu og
frá Japan. Skal játað, að ég kann einna sízt að meta þau, enda flest
órímuð. Þó eru t. d. einhverjir töfrar í þessum orðum (úr japönsku ljóði
frá miðöldum):
Hvernig mimtu komast
einn þíns liðs
yfir haust-fjallið
sem var svo örðugt yfirferðar
jafnvel okkur báðum saman?
Lengsta kvæði bókarinnar er Rúbajat (ferhendur), eftir Ömar Kajam
hinn persneska. Munu margir spyrja, hvaða þörf hafi verið á að þýða
Ferhendur tjaldarans, er þeir Einar Benediktsson og Magnús Ásgeirsson
hafa áður þýtt. Því er þar til að svara, að þýðing Helga er í vissum
skilningi gerð eftir öðru kvæði en þýðingar þeirra Einars og Magnúsar,
sem íslenzkuðu Rúbajat eftir upphaflegri enskri þýðingu Edwards Fitz-
geralds, sem var 75 vísna bálkur. Seinna breytti Fitzgerald þessari þýð-
ingu sinni og jók við nýjum visum, svo að alls urðu þær 110. Eftir þessari
auknu útgáfu hefur Helgi að mestu gert þýðingu sína. Enn fremur tekur
hann með nokkrar vísur, sem Fitzgerald birti utan aðalbálksins, svo að í
þessari nýju þýðingu eru samtals 116 vísur. Hér er því um sérstakan
bókmenntaávöxt að ræða, sem eigi er alls kostar réttmætt að bera saman
við eldri þýðingar, enda mun ég láta það ógert. Eigi skal heldur fundið
að neinu því, sem á kann að skorta í einstökum atriðum, borið saman við
hina snilldarlegu ensku þýðingu, heldur litið á kosti þessa verks, sem eru
miklir og ótvíræðir. Þó að sumar vísurnar bendi til þess, að Helga hafi
brostið afl í viðureign sinni við Ömar og Fitzgerald, þá er þessi langi
vísnaflokkur í heild gæddur þýðleika, mýkt og samræmi, sem vekur
undrun og aðdáun.
Til þess að finna orðum minum nokkurn stað og gefa mönnum hug-
mynd um, hve mjúkum höndum er farið mn vandað efni, skulu teknar