Skírnir - 01.01.1953, Síða 227
Skímir
Ritfregnir
223
Svo sitjum við hljóðir og biðum þess við þinn barm
að byrgja vort höfuð á svæfli þinnar moldar,
í rökkurþögn ellinnar handan við fögnuð og harm,
með reynslunnar vizku sem aleigu og einkavin
og ósk vors hjarta, þá hinztu, að mega verma
vorar hendur við sól, en hugann við stjarnanna skin.
ÞórocLdur GuSmundsson.
Gunnar Dal: Sfinxinn og hamingjan, kvæði. Prentsmiðja Austur-
lands, Reykjavik 1953.
Á Þorláksdagskvöld varð mér gengið inn í bókhlöðu Sigfúsar Eymunds-
sonar og litið á þann andlega forða, sem hún hafði að geyma og á boð-
stólum var. Nógu virtist úr að velja. Glitfagrar kápur og gylltir kilir
freistuðu kaupandans. En ég stóðst þær ginningar. Af óljósu hugboði eða
rælni keypti ég litið ljóðakver með ofanrituðu nafni, hugsaði víst sem
svo, að það væri fljótlesið, ekki stærri bók, hún hefði þó það sér til ágætis.
Þegar heim kom, las ég svo kverið í einni lotu, marglas það. Ég tafðist
miklu meira við yfirferð þessara ljóða en af lestri margra bóka miklu
stærri að blaðsíðutali. Ljóðin urðu mér tilefni ihugunar og heilabrota.
Hvað vakir fyrir skáldinu, og hvert er hann að fara? Þetta voru spuming-
ar, sem vöknuðu við lesturinn.
Bókinni má skipta í tvo kafla, kvæðaflokkinn Októberljóð, sem nær
yfir fyrra helming hennar, og einstök kvæði, sem flest eru stutt. Október-
ljóðin eru fimmtán að tölu. Flest eru þessi ljóð dulúðug og torræð, minna
helzt á véfréttir eða goðsvör. Lengi vel fannst mér sem skáldið væri að
leita týndra dýrgripa eða einhvers fagurs, sem hann hefur fengið hugboð
eða vissu um, sér það eða finnur, en missir svo aftur sjónar af því inn
í þoku eða myrkur. Smám saman birtir þó yfir á nýjan leik, og sviðið
skýrist. Ýmislegt óvænt kemur í Ijós. Sumt þessara fyrirbrigða líkist að
vísu hillingum á eyðimörk að þvi leyti, að þau dvína, þegar í nánd er
komið. Þá opnast enn á ný útsýni eigi síður heillandi en áður — fegurð,
sem stundum er þó aðeins fólgin í trega og harmi, sbr. hinn fallega 14.
þátt: Hrynur lauf. . . Loks verður efnið áþreifanlegt og tekið föstum
tökum í síðasta kafla ljóðabálksins: Sfinxinn og hamingjan, nýstárlegu
og heilsteyptu kvæði, enda ber bókin nafn þess. Yfir þessum kvæðaflokki
er austrænn blær, víða seiði blandinn. Samt sem áður býst ég við, að
ýmsir lesenda taki ekki goðsvörin gild, kjósi heldur lausn á ráðgátum
en meiri flækjur. Ætla má, að almennir lesendur njóti betur síðara hluta
bókarinnar, því að þar eru yrkisefnunum yfirleitt gerð betri skil, þar eð
þau eru flest almennara efnis. Októberljóðin hins vegar virðast í ætt við
austræna speki, sem oss flestum er framandi og óljós. Með þvi er engan
veginn lítið úr þeim gert. Oft er sízt minna um það vert að fylgjast
með manni við erfiða tilraun, sem hann ræður ekki alls kostar við, en
sjá hann fullgera annað og vandaminna verk óaðfinnanlega.