Skírnir - 01.01.1953, Qupperneq 240
236
Ritfregnir
Skírnir
vafalitið hefur verið ungt handrit og fremur slæmt. Þessi handrit eru
AM 496, 4to (— A) og AM 161 fol. (= B), og er hið fyrra skrifað fyrir
Þorlák biskup Skúlason, en hið síðara af Jóni Erlendssyni fyrir Brynjólf
biskup Sveinsson. Hafa því báðir þessir mætu menn lagt fram sinn skerf
til að bjarga þessari sögu frá glötun, og mátti sýnilega ekki seinna vera,
þar sem svo virðist sem á fyrri helmingi 17. aldar hafi hún aðeins verið
til í einu handriti er síðan hefur glatazt. Samkvæmt rannsókn Jónasar
Kristjánssonar eru öll hin handritin frá þessum tveimur runnin, og virðast
rök hans fyrir þeirri niðurstöðu óyggjandi.
Texti sögunnar er prentaður stafréttur eftir A með fullum orðamun
úr B, en leshættir úr B því aðeins teknir í texta að þeir séu bersýnilega
réttir. Þar sem bæði handritin hafa rangan eða hæpinn texta er aftur
á móti ekki gerð nein tilraun til að lagfæra hann, og er það í samræmi
við markmið útgáfunnar, að hún sé hrein undirstöðuiitgáfa textans, þ. e.
að allur efniviður hans sé lagður fram með þeim hætti að ekki verði um
villzt. En leiðréttingar sinar á textanum mun Jónas Kristjánsson bráðlega
birta í útgáfu sögunnar í Islenzkum fornritum. Ýmsir þeir sem söguna
skrifuðu upp í yngri handritunum, svo og fyrri útgefendur, hafa gert
leiðréttingar og breytingar á textanum, og birtir Jónas yfirlit um það
markverðasta af því tagi aftan við texta sinn, og má af því a. m. k. draga
lærdóm um það hvað þessum mönnum hefur þótt athugavert, auk góðra
tillagna um lagfæringar.
Inngangur Jónasar fjallar eingöngu um handrit sögunnar, enda vísar
hann til þess að hann muni brátt gera efni hennar skil í íslenzkum forn-
ritum. En með rannsókn sinni á handritunum hefur hann komið texta
sögunnar á annan og miklu traustari grundvöll en fyrri útgáfur höfðu
gert. Hvorttveggja var að fyrri útgefendur höfðu ekki kannað nema til-
tölulega fá handrit og gerðu sér óljósar hugmyndir um skyldleika þeirra,
og varð því bæði öll útgerð textans og orðamunur úr öðrum handritum
allmjög af handahófi, eins og Jónas sýnir fram á.
Jónas Kiristjánsson var um skeið styrkþegi Árnanefndar og vann að
þessari útgáfu í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Jóns prófessors Helga-
sonar. öll vinnubrögð við útgáfuna, vandvirkni og samvizkusemi, bera
þess merki að útgefanda hefur verið vistin í Árnasafni betri en engin.
Með verki þessu hefur hann sýnt að í honum hafa íslenzk fræði eignazt
efnilegan liðsmann, og er ástæða til að fagna því, svo og hinu, að gamla
og góðkunna félagið með langa nafninu er risið úr rústum á ný og hefur
gefið honum og öðrum ungum Islendingum kost é að leysa af hendi
prófraun í útgáfu fornra texta.
Jakob Benediktsson.
Nordisk kultur XVII. Byggnadskultur. Utgiven av Sigurd Erixon.
Stockholm 1933.
Þetta bindi ritsafnsins Nordisk kultur hefur verið lengi á leiðinni.