Skírnir - 01.01.1953, Qupperneq 248
244
Ritfregnir
Skírnir
vizkusemi og gætni. Mikla áherzlu leggur hann á þann þátt, sem drótt-
kvæðin eiga í varðveizlu söguefnis, er það í samræmi við orð hinna fornu
höfunda sjálfra. Vænti ég, að þetta verði seint ofmetið. Vera má, að fáir
vilji neita þessu í orði kveðnu, en í reynd er miklu minna gert úr því
að jafnaði en ástæða er til. T. d. er oft, að menn greina sundur eftir
mætti munnlegar sögur, er menn halda, að til hafi veiúð, og kvæðin, þar
sem hitt er þó án efa sanni nær, að meðan kvæðin varðveittust, fylgdu
þeim oftast sagnir.
Ég gat í Skírni í ritdómi um síðustu bók próf. Turville-Petres, að tölu-
verður skortur væri á enskum fræðsluritum og uppsláttarverkum um is-
lenzk efni. Enginn efi er á, að hann hefur mikinn vilja á að bæta úr
því, og hefur hann þegar unnið þarft verk með bókum sínum. Hann
hefur ætlað sér að semja gagnlega bók með traustri fræðslu, og það hefur
honum tekizt. Þekking hans á efninu er mikil og víðtæk, bæði á forn-
ritunum sjálfum og rannsóknum á þeim. Mjög fátt held ég hafi slæðzt
inn af villum, og þó að ég geti nefnt, að Þórhallur spámaður bjó á Hörgs-
landi á Síðu, en ekki á Suðvesturlandi (53), og þó að ég ætli, að Óðinn,
Vilji og Véi hafi lyft löndum úr Ginnungagapi, en ekki Óðinn, Hænir og
Lóðurr (57), þá hossa slíkar athugasemdir ekki hátt. Höfundurinn leitar
af mikilli kostgæfni staðreynda og vissu, en þegar ekki er um slíkt að
ræða, velur hann langoftast hinn líklegasta kostinn. Um bókina má segja
það, sem forðum daga var sagt um nokkuð kunn rit, að hún er samin af
„skynsamlegu viti“.
E. Ö. S.
Nordisk kultur VIII: B. Litteraturhistorie B. Norge og Island, ud-
givet af SigurSur Nordal. Uppsala 1953.
Ritsafnið „Nordisk kultur" er eitt dæmi um norræna samvinnu í fram-
kvæmd. Það er gefið út með styrk af „Clara Lachmanns fond“, ritstjórar
þess eru prófessorarnir Johs. Brondum-Nielsen, Sigurd Erixon og Magnus
Olsen, og það kemur í senn út í Stokkhólmi, Ósló og Kaupmannahöfn.
Ég les aftan á kápu þessarar bókar, að út eru komin 26 bindi af rit-
safninu, þar af þó tvö hálf, en auk þess eru í prentun 4 bindi eða hálf-
bindi. öll eru þau stórlega mikilsverð og geyma ómetanlegan fróðleik
um menningu Norðurlanda, einkum í fornöld og á miðöld. Ritstjórn
hvers bindis hefur verið falin einhverjum sérfræðingi, sem síðan hefur
valið hæfa menn til að skrifa einstaka kafla. Veigamesta aðfinnslan
við ritið ætla ég sé, að sjónarmið ritstjóra hinna einstöku binda hafa
komið óþarflega mikið fram í vali efnis, t. d. er ekki því að leyna, að
hlutur Islands hefur orðið minni í ritinu en réttlátt og skynsamlegt er.
En hér er ýmislegt til afsökunar, sérstaklega heimsstyrjöldin, sem gerði
öll skipti milli fslands og annara Norðurlanda erfið langa-lengi, og það
einmitt á þeim tíma, þegar meginið af verkinu var í undirbúningi.
Ekki verður sagt, að hlutur fslands væri fyrir borð borinn í hinu 8.