Skírnir - 01.04.1990, Page 12
Frá ritstjórum
Tvær breytingar verða á frágangi og útliti Skímis með þessu hefti. í stað
aftanmálsgreina eru tilvitnanir og athugasemdir nú birtar neðanmáls og vona
ritstjórar að lesendum finnist þessi breyting auðvelda og auðga lesturinn. Þá
hafa verið gerðar breytingar á kápu og sá Torfi Jónsson, listmálari, um þær.
Kápu Skírnis mun framvegis prýða mynd eftir íslenskan listamann, og eru
jafnframt sögð nokkur deili á listamanninum í heftinu. Við hefjum þáttinn
„Myndlistarmaður Skírnis“ á því að líta til hefðarinnar og birtum myndina
„Þistlar" eftir Júlíönu Sveinsdóttur (1889-1966), og sér Hrafnhildur Schram
um kynningu á henni. Framvegis verða að öllu jöfnu birt verk úr sam-
tímanum eftir karl og konu til skiptis.
Skáld Skírnis er að þessu sinni Gyrðir Elíasson. Gyrðir er langyngstur
þeirra höfunda sem skipað hafa þennan sess og er þetta í fyrsta sinn sem birt
er smásaga undir þessum lið. I heftinu eru einnig örsögur eða orðskviðir eftir
svonefnda „Eyðimerkurfeður“, og gerir Karl Sigurbjörnsson grein fyrirþeim
í inngangi að þýðingu sinni.
Meðal annars efnis má nefna tvær greinar um íslenskar fornsögur og koma
þær úr gjörólíkum áttum. Nýsjálenski fræðimaðurinn Russell Poole bregður
allnýstárlegu ljósi á dróttkvæði, en íslensk alþýðukona, Kristín Geirsdóttir
frá Hringveri á Tjörnesi, heldur á lofti hefðbundnum skilningi á stöðu
íslensks sagnaefnis. Kristín gagnrýnir þá meðferð sem þetta efni hefur fengið
í nýlegum ritgerðum fræðimanna hér í Skírni.
Þrjár greinar fjalla um þann merka mann, Björn Gunnlaugsson, og eru þær
að stofni til erindi sem flutt voru í tilefni af 200 ára afmæli Björns á opnum
fundi Vísindafélags Islendinga 25. september 1988.
Meðal Skírnismála er hugleiðing um Evrópubandalagið eftir Ólaf
Davíðsson. Ólafur hyggur sérstaklega að spurningum um afdrif íslenskrar
menningar verði af aðild íslendinga að bandalaginu. Það er ánægjulegt að
þessi mikilvæga umræða sé hafin á vegum Hins íslenska bókmenntafélags og
hvetja ritstjórar lesendur til að leggja orð í belg um efnið.
Fyrir örfáum árum þótti ekki viðunandi annað en að Skírnir væri settur í
blý að gömlum sið. Nú setja höfundar yfirleitt sjálfir greinar sínar í eigin
tölvum og skírnisbrotið verður til í tölvu Árna Finnssonar hjá Háskóla-
útgáfunni. Síðastliðin ár hefur ritið verið sett x tölvu, en það hefur verið brotið
um með hefðbundnum hætti í Prentsmiðjunni Eddu. Sverrir Sveinsson,
verkstjóri, hefur haft veg og vanda af þessu verki og sinnt því af einstökum
áhuga og alúð. Ritstjórar þakka Sverri afar ánægjulegt samstarf.