Skírnir - 01.04.1990, Side 43
SKÍRNIR
HUGLEIÐING UM FORNSÖGUR
37
einskonar húsgangur í sögum til forna. Um annað efni, sem þarna er
tilnefnt, sem líklegar fyrirmyndir að atriðum í Njálu, veit ég fremur
lítið. En ósköp þykir mér ótrúlegt að svona margt hafi af ráðnum hug
verið tínt saman sitt úr hverri áttinni til þess að koma því fyrir í Njáls-
sögu.
Dr. Hermann segir að mörg slík dæmi séu raunar hulin flestum
dauðlegum mönnum og furðuleg er sú kenning „að í íslenskum
fornritum úi og grúi af stöðum, sem ekki séu einungis þegin úr lærðum
bókum, heldur og ærið vafasamt að þau hafi nokkurntíma þrifist utan
bóka“.
Meðal annars er nefndur Ivars þáttur Ingimundarsonar og sagt að
hann virðist vera samantekinn utan um latneskt spakmæli: „Það verður
stundum að mönnum verður harms síns að léttara, ef um er rætt.“
En er nú ekki fullt eins líklegt að norrænum mönnum hafi einnig
verið kunnugt um þessi sannindi og hafi ekki þurft að sækja þau til
Rómar, enda algengt orðtakið: „Maður er manns gaman.“ Hinsvegar
trúi ég staðfastlega frásögn Sturlungu um það að Kolbeinn kaldaljós
hafi talað yfir Guðmundi góða önduðum, þó að Arngrímur ábóti vilji
kveðja þar til lærðan klerk, en hans vitnisburður er miklu yngri og fjær
vettvangi.
Ásbirningar lumuðu á fleiru en hermennsku og grimmd. I þeirra
röðum var andríkasta og persónulegasta ljóðskáld þessa tíma á landi
hér, Kolbeinn Tumason, en um hann segir að hann hafi verið „vel
menntur". Og um Kolbein kaldaljós er sagt að hann hafi mælt „fagurt
erindi“ yfir greftri biskups. Einnig er athyglisvert, að hvað eftir annað
er getið um bréfaskifti, þ.e. sendibréf, sem fóru á milli manna hér
innanlands og er það sennilega með því elsta, sem hér er vitað um á því
sviði. Það virðist því vera sagt í hálfgerðu ógáti að Ásbirningar hafi
„lítið komið við lærdóm og menntir", eins og lesa má í nýlegu fræði-
riti.3 Þeir virðast að vísu ekki hafa sóst eftir kirkjulegum vígslum eða
embættum. Það gerðu Sturlungar ekki heldur með alla sína bókvísi. -
Allt bendir til þess að Kolbeinn kaldaljós hafi verið mikill ágætismaður,
vitur og vel að sér, en óhlutdeilinn og friðsamur, enda mátti hann, áður
lauk, saklaus þola þung högg í róstum aldarinnar. Nú fær enginn vitað
3 Gunnar Karlsson, „Frá þjóðveldi til konungsríkis", Saga Islands II (Hið
íslenska bókmenntafélag 1975), bls. 34.