Skírnir - 01.04.1990, Qupperneq 55
SKÍRNIR
HUGLEIÐING UM FORNSÖGUR
49
jafnframt hinu íslenska biskupsdæmi. Listi af þessu tagi, gerður meira en tvö
hundruð árum eftir að menn settust að á íslandi, gat að sjálfsögðu ekki verið
saga í eiginlegum skilningi. [...] Landnámabók verður óhjákvæmilega að telja
safn goðsagna.
Með samþykki íslensku biskupanna reyndi Ari fróði að búa til sögu úr
goðsögunum um eignatöku íslands, um landnámið. [. ..] Listinn, sú Land-
námabók, sem til var, var settur í tímatalsfræðilegan ramma í riti Ara. ísland
var sagt hafa orðið „albyggt" á sextíu vetrum. Þannig varð hinn svokallaði
landnámstími til. Með lærðu hugarflugi var reynt að teygja sögulegan tíma
aftur í tímann, yfir goðsögulegt upphaf, og telja Landnámabók sögulegt rit.
Landnámstíminn, sem þannig var afmarkaður frá um 870 til 930, er
skrifborðstilbúningur sem gerður vár að söguskoðun . . ,16
Hér hefur verið reynt að leiða líkur að því að ritun á Islandi hafi
byrjað fyrr en venjulega er talið, og er þar að vísu stuðst við orð mér
miklu vitrari manna. En ég hef líka lengi haft samskonar hugmyndir um
þetta og raunar finnst mér það hafið yfir allan efa að eitthvað hafi verið
farið hér með ritföng á 11. öld, jafnframt því sem klerkdómur varð
almennur í landinu og skólar stofnaðir. Hitt er auðvitað annað mál að
ekki er vitað hvað skrifað hefur verið, en ætla má að það hafi fyrst og
fremst verið latínugreinar í sambandi við messugerðir og skólastarf.
Auðvitað má vera sitthvað fleira, mér finnst t.d. mjög ósennilegt að
tíundarlögin hafi ekki með einhverju móti verið skrásett.
Hver getur ráðið í það nú, hvað menn kunna að hafa krotað niður
sér til minnis á þessari löngu horfnu tíð? Það veit enginn. En ég skil
ekki að nokkurntíma verði hægt að sanna, að það hafi ekkert verið.
Tæplega mun þó hafa verið um samfellda ritun að ræða, fyrst ekki er
til vitnað, svo að það sé þekkjanlegt. (Samt skilst mér að talið sé að til
hafi verið sagnfræðilegt rit, svipað að aldri, ef ekki eldra, en svokölluð
frumlandnáma). Margt fleira gæti svo sem hafa glatast.
Dr. Sveinbjörn Rafnsson telur, og er það raunar kjarninn í ritgerð
hans, að Landnáma hafi verið tekin saman til að staðfesta eignarrétt
höfðingjastéttarinnar á landinu með því að smíða „lista“ yfir
landnámsmenn, sem verið hefðu forfeður þeirra manna, sem fóru með
völdin á ritunartíma bókarinnar. En mikið vandaverk hefur það verið
að semja slíkan lista og láta allt ganga upp. Og mikið hafa þeir verið
hógværir, blessaðir höfðingjarnir, að allir skyldu geta verið ánægðir,
16Sama rit, bls 318-319.