Skírnir - 01.04.1990, Side 56
50
KRISTÍN GEIRSDÓTTIR
SKÍRNIR
hver með sína forfeður og sín landnámsóðul, það hafa að minnsta kosti
ekki farið sögur af að þetta hafi valdið togstreitu eða metingi. En svo
var annað, hvað gat komið höfðingjunum til að berjast við að láta
spinna allt þetta upp? Hversvegna í ósköpunum tóku þeir þetta fyrir?
Ekki var nein alþýðubylting í aðsigi.
Erjur og staðbundin vígaferli höfðu að vísu tíðkast allt frá upphafi,
meira að segja bregður fyrir dæmi um að barist væri til landa, en ég get
ekki áttað mig á að neitt bendi til þess að rengdar hafi verið heimildir
að landnámum eða goðorðum og öðrum mannaforráðum. Og jafnvel
þó að svo hefði verið, voru nokkrar líkur til þess að svona safn út í
bláinn - goðsagnir, eins og hér er kallað, hefði komið að haldi? Er ekki
líklegra að það hefði komið af stað nýjum glundroða og viðsjám, ef
ekki stórdeilum?
Svo drenglyndir hafa verið þeir sem listann sömdu, að þeir lögðu það
á sig að koma við í nokkurnveginn hverri byggð og geta hvarvetna
landnáma eftir föngum. Má því segja að þar með hafi þeir landnemar,
sem minniháttar töldust, átt að njóta þeirra mikilsverðari. En ef þessi
umtalaði samsetningur hefði aðeins verið gerður til að tryggja
eignarrétt höfðingja á stærstu landnámunum, er efamál að svona
nákvæmlega hefði verið farið í sakirnar. Eg er aftur á móti, svo sem
áður hefur verið sagt, eindregið þeirrar skoðunar, að öll þessi skráning
um landnám á íslandi hafi verið gerð í einlægni eftir þeim heimildum,
sem fáanlegar voru. Þar með er ekki fullyrt að allt séu þetta öruggar
heimildir. Atb'urðirnir voru komnir í of mikla fjarlægð og enginn
maður er fullkomlega laus við yfirsjónir. Það misræmi, sem sagt er vera
milli gerða þeirra handrita sem til eru, sýnir að eitthvað hafa sagnirnar
verið farnar að færast til í sumum greinum, en það sýnir einnig að um
raunverulegar munnlegar sagnir hefur verið að ræða. Og er nú í
rauninni nokkur grundvallarmunur á þessum gömlu landnámssögnum,
þó að ekki beri öllu nákvæmlega saman í hinum smærri greinum?
Og hvað sem hver segir, verður því varla neitað að íslendingar hafa
átt fróðleiksmenn. Er ekki sagt, að Stjörnu-Oddi hafi, í einangrun
norður í Þingeyjarsýslu, náð eitthvað lengra á vissu sviði stjarnmælinga
en lærðir stjörnufræðingar þess tíma suður í Evrópu?
Og ættartölurnar, sem dr. Sveinbjörn er svo þakklátur Arna
Magnússyni fyrir að telja bjagaðar og sumar fals. Víst er vitnisburður