Skírnir - 01.04.1990, Side 59
SKÍRNIR
HUGLEIÐING UM FORNSÖGUR
53
minnilegt. Hér risu engar borgir þar sem þessi fróðleikur hefði ef til vill
fremur máðst út, en hinsvegar gerðust hér óðalsjarðir og höfuðból, sem
oft héldust lengi í ættum. Það lítur út fyrir að margar helstu land-
námsættirnar hafi að mestu búið í sömu héruðum lengst af þjóðveldis-
tímans. Auk þess var lengi vel furðu stöðugt samband við móðurlandið,
Noreg, jafnvel nokkuð rækt frændsemi yfir hafið, að minnsta kosti í
sumum ættum.
Ég trúi ekki öðru en að í hverri einustu sveit hafi verið við lýði
einhverjar minningar um landnámið, þegar farið var að safna frá-
sögnunum um það. Má vera að þau minni hafi sumstaðar verið óljós
orðin, en ekki horfin með öllu. Og enn, á því herrans ári 1989, þegar
liðin eru talsvert meira en þúsund ár, er landnámsins minnst í daglegri
ræðu og við það miðað. Ég hef margoft heyrt sagt sem svo í tali um hin
og önnur efni, að þetta hafi „verið svona frá því um landnám“, eða
„síðan land byggðist". Núna eru ekki liðnir nema örfáir dagar frá því
að ég síðast heyrði kveðið svo að orði.
Dr. Sveinbjörn Rafnsson heldur því fastlega fram að landnámabækur
íslendinga hafi verið skráðar undir valdi kaþólsku kirkjunnar og átt að
vera henni til framdráttar. Víst var Ari Þorgilsson kaþólskur prestur og
hefur án efa verið ágætlega lærður á latnesk fræði síns tíma. En hafi
hann verið mjög háður Rómavaldinu, því í ósköpunum skrifaði hann
þá ekki á latínu eins og flestir menntamenn Evrópu munu hafa gert á
þessum tíma? Því tók hann sér fyrir hendur það brautryðjendastarf að
laga móðurmál sitt til rithæfni? „Hann ritaði fyrstur fræði á norrænu
máli“, segir Snorri.
En hvað var það, sem knúði Ara til að taka þessa ákvörðun? Hvers-
vegna greip hann ekki til latínunnar eins og t.d. Laxin í Danmörku. Já, -
hversvegna? Tæplega hefur það getað verið fyrir áhrif frá krossferð-
unum. Satt að segja liggur við að ég undrist það að ekki skuli vera lagt
enn meira en gert er upp úr þessari ákvörðun Ara og samstarfsmanna
hans, að brjóta ríkjandi hefð og rita á móðurmálinu, en ekki latínu. Nú
finnst það ákaflega merkilegt, enda eigum við að miklu leyti því að
þakka mál okkar og menningu og sjálfstæði þjóðar. Og ég endurtek,
ekki var þetta nein „afurð“ krossferðatíma eins og dr. Sveinbjörn segir
um Islendingabók, ogþað ber ásamt fleiru vott um að kirkjan hefur ekki
haft neitt altækt vald yfir íslenskum menntamönnum á þessum tíma.