Skírnir - 01.04.1990, Page 76
70
HARALDUR SIGURÐSSON
SKÍRNIR
sæmileg kort. Grímur Jónsson amtmaður hreyfði því líka í bréfi til
Bókmenntafélagsins, sem varðveitt er í handritadeild Landsbókasafns,
að fá mætti sæmileg sýslukort með því að draga stiganet í hæfilegum
mælikvarða inn til landsins frá strandkortunum. Efni þeirra skyldi tekið
upp svo langt sem þau næðu, en afganginn skyldu „Sýslumenn eða
aðrir upplýstir, nærfærnir, kunnugir og hugvitssamir Islendingar fylla
eftir eigin þekkingu og annarra frásögn“, eins og hann orðar það í bréfi
sínu. Grími er þó ljóst að slíkt kort hljóti að standa mjög að baki kort-
um Björns.
Mælingarnar virtust nú komnar í sjálfheldu vegna fjárskorts, og
Björn vann ekkert að þeim sumarið 1836. En þá greiddist svo úr mál-
unum að stjórnvöld tóku að sér að greiða kostnað við að undirbúa
kortin til prentunar og kosta útgerð þeirra. Auk þess veittu þau Birni
nokkurn árlegan styrk til þess að halda verkinu áfram. Við þetta
greiddist svo hagur landmælinganna að Björn hélt verkinu ótrauður
áfram og lauk því á árunum 1837-1843.
Talið er að Björn hafi ferðast 800 daga samtals við mælingarnar.
Hann fór um flestar byggðir landins. Þó hefur hann líklega aldrei farið
um Langanesstrandir og Melrakkasléttu. Hann kom heldur aldrei á
Vestfirði norðan ísafjarðardjúps og Reykjarfjarðar í Strandasýslu né á
norðanverðan Skaga. En öllum þessum svæðum voru gerð sæmileg skil
á strandkortunum.
Um miðhálendið gegndi hins vegar öðru máli, enda lagði Björn
áherslu á að mæla byggðir og fjalllendi í nánd við þær og taldi að
miðöræfi landsins þyldu fremur bið eftir betra korti. Þó reyndi hann að
afla sér allrar fáanlegrar vitneskju um miðlandsöræfin, sem hann átti
ekki kost á fara um nema að litlu leyti. Þannig varð fjalllendið upp frá
Lóni og hin víðáttumiklu öræfi inn af Múla- og Þingeyjarsýslum að
mestu leyti útundan, og aldrei kom hann á svæðið sunnan Köldukvíslar
suður til Fögrufjalla. Hann gat þó fengið dálítið yfirlit um þessi svæði
með því að ganga á fjöll þar í grenndinni, eins og Kistufell og
Hágöngur.
Þar sem Birni gáfust ekki kostir á að fara um, fékk hann kunnuga
menn til þess að gera uppdrætti af ýmsum hlutum landsins eða ákveðn-
um svæðum. Þannig er til uppdráttur eftir ókunnan höfund með leið-
réttingum Björns af svæðinu uppfrá austanverðum Skjálfanda suður til